Við erum eina Evrópuþjóðin sem veiðum sæbjúgu að einhverju marki, aflinn á þessu ári fer sennilega í sex þúsund tonn. Það er alveg slatti,“ segir Davíð Freyr Jónsson eftir að hafa hlotið verðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar 2018 fyrir framsækna og frumlega starfsemi fyrirtækisins Aurora Seafood, við veiðar og vinnslu sæbjúgna.

„Við stofnuðum útgerð og byrjuðum að brasa í þessu fyrir alvöru 2016, þó fyrstu tilraunir hafi verið árið 2003. Vorum lengi utan radars og nú fyrst er starfsemin að skjóta rótum. Sóttum um styrk til Evrópusambandsins og fengum hann í fyrra, um 200 milljónir króna. Sá peningur fór í að þróa veiðarfærin og þessa vél sem við vorum að fá verðlaun fyrir.“

Davíð Freyr kveðst vera landkrabbi, kominn til sjós. „Ég er uppalinn á Fljótsdalshéraði en er með skipstjórnarréttindi á allt að tólf metra bátum.“ Hann segir slíka báta of litla fyrir þessar veiðar og því hafi stærra skip, Klettur ÍS, verið keypt. Hann segir sæbjúgnamiðin vera bæði fyrir austan og vestan land svo Klettur sé mikið á flakkinu.

Vinnsla sæbjúgnanna er ekki undir merkjum Aurora Seafood ennþá, heldur er henni útvistað til manns á Stokkseyri, að sögn Davíðs Freys.

En hvernig eru veiðarfærin fyrir sæbjúgun?

„Þau eru keðjugluggar sem eru dregnir yfir botninn. Við reynum auðvitað að hafa raskið sem minnst,“ lýsir hann og segir Kínverja um allan heim aðalviðskiptavinina fyrir sæbjúgun. „Þó eru margir Íslendingar farnir að nota sæbjúgnaarfurðir sjálfir, án þess kannski að vita af því, í töflum við liðverkjum.“

Þrátt fyrir að neysla sæbjúgna sé mest í Asíu gat Aurora Seafood ekki sótt hugmyndir að veiðarfærum þangað heldur tók það ráð að þróa sín eigin. „Það er svo mikið kafað eftir þessu sjávarfangi víða um heim og svo er algengt að sæbjúgu séu alin í kerjum í Asíu,“ útskýrir Davíð Freyr.

Hann er að sjálfsögðu afar ánægður með þá viðurkenningu sem í verðlaununum felast. „Það var mjög gaman að fá verðlaunin. Þau eru staðfesting á því að við séum að gera eitthvað sem fleirum en okkur finnst áhugavert.“

Smáfróðleikur um sæbjúgu

Sæbjúgu er að finna á hafsbotni um allan heim. Til eru um 1.250 tegundir og finnast flestar þeirra í Asíuhluta Kyrrahafs. Þær eru veiddar til manneldis og sumar tegundir eru ræktaðar.

Sæbjúgun mynda stóra hópa sem hreyfa sig eftir botninum og veiða sér til matar. Líkami sumra tegunda eru úr sterkum gelkenndum vefjum.

Heimild/Wikipedia