Lögreglan lagði hald á 450 grömm af kókaíni fyrir fjórar milljónir króna árið 1987 þegar brasilísk hjón voru handtekin í Hveragerði. Á verðlagi dagsins í dag er verðmætið um 21 milljón króna. Voru hjónakornin með 780 þúsund í peningum. Lögreglan hafði aldrei lagt hald á svo mikið af kókaíni og fluttu fréttamiðlar fjölmargar fréttir af þessum ógnarfundi í Hveragerði enda var þetta meira magn en áður hafði fundist samanlagt. Í frétt Morgunblaðsins af málinu segir að fyrst hafi orðið vart við kókaín árið 1980 og síðan hafi fundist um 15-20 grömm árlega.

Hjónin, 40 ára kona og 25 ára karlmaður, komu hingað til lands frá Lúxemborg þann 1. október. Þau dvöldu fyrstu dagana á höfuðborgarsvæðinu, en þegar þau voru handtekin höfðu þau tekið herbergi á leigu í gistihúsi í Hveragerði. Kókaínið höfðu þau komið með hingað til lands, en ekki er vitað hvaðan peningarnir komu. Rúmur helmingur þeirra var Bandaríkjadalir en afgangurinn íslenskar krónur.

Í lok janúar 1988 var maðurinn dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Konunni var sleppt fljótlega, enda átti hún engan hlut að máli samkvæmt dómnum. Maðurinn játaði við yfirheyrslur að hafa flutt efnið til landsins, en sagðist ekki eiga það sjálfur og neitaði að hafa selt kókaín hér á landi þrátt fyrir allar krónurnar í fórum hans og að vera með 450 grömm.

Hann kvaðst hafa ætlað að flytja efnið til Bandaríkjanna. Hluta peninganna reyndist eiginkona hans eiga, en í ákæru var þess krafist að lagt yrði hald á 360 þúsund krónur í hans eigu. Ekki kom til þess þar sem maðurinn afsalaði sér peningunum sem hann kvaðst hafa ætlað að nota til að kaupa ullarfatnað hér á landi og selja í Bandaríkjunum.

Þetta var lengsti dómur fyrir fíkniefnabrot, sem ekki var áfrýjað, sem kveðinn hafði verið upp hér á landi.