Þegar ég var tuttugu og tveggja ára var ég að sækja mér spýtu í timburverslunina Völund við Klapparstíg og datt í hug að labba inn í útvarpshúsið við Skúlagötu 4 og athuga hvort þar vantaði starfskraft og var ráðinn sem þulur.“ Þannig lýsir Ævar Kjartansson því hvernig hann varð fyrst starfsmaður Ríkisútvarpsins. Eftir 1980 kveðst hann hafa verið þar samfellt og verða til 1. september. Hann segir hafa verið meira um áður fyrr að fólk kæmi inn af götunni með útvarpsefni. „Kennarar héldu erindi, nemendur komu með BA-ritgerðir og bjuggu til útvarpsþætti og aldrað heiðursfólk las úr gömlum bókum og kom fram í þáttunum Um daginn og veginn.“

Á uppvaxtarárum á Grímsstöðum á Fjöllum segir Ævar útvarpið hafa verið helsta tengilið við umheiminn. „Blöð komu hálfsmánaðarlega á veturna en útvarpið hélt manni upplýstum um gang mála. Ég man líka að ég hlustaði á Grettissögu sem smákrakki, ægilega spenntur, en heyrði ekki allt vegna truflana svo ég lærði að lesa í hvelli því mig vantaði inn í.“ Hann kveðst þakklátur fyrir tónlistina sem útvarpið ól hann upp við. „Lög unga fólksins voru mikilvæg og klassíska tónlistin sem var svo ríkjandi hafði líka áhrif, til dæmis „síðasta lag fyrir fréttir“.

Eftir stúdentspróf frá MA tók HÍ við hjá Ævari. „Þegar ég var unglingur langaði mig að verða prestur en þegar í háskólann kom fór ég í hagræn þjóðfélagsfræði, sem var stjórnmálafræði, mannfræði og félagsfræði, og hefur nýst mér vel. En um fimmtugt skellti ég mér í guðfræðina, tók meira að segja embættispróf og sótti um eitt prestakall, Laufás við Eyjafjörð, en fékk ekki og hef ekki sótt um aftur. Er samt hrifinn af kirkjunni sem menningarstofnun og söng í Mótettukór Hallgrímskirkju í tólf ár.“

Þótt sjötugsafmælið marki tímamót býst Ævar ekki við að halda upp á daginn. „Konan mín, Guðrún Kristjánsdóttir, er fjórum dögum eldri en ég og við héldum smá veislu í sælureitnum okkar á Skarðsströnd um síðustu helgi. Það er ekki stemning núna fyrir að hóa fólki saman svo við látum það gott heita.“