Þetta hafðist,“ sagði Kristmundur Dagsson, verktaki á Egilsstöðum, eftir að hafa náð þeim áfanga á þremur dögum að ryðja veginn milli Héraðs og Mjóafjarðar sem hafði verið lokaður síðan í byrjun desember. Hann veit ekki nákvæmlega hversu leiðin var löng en giskar á sjö til tíu kílómetra. „Ég fór um tvo kílómetra í gær og komst eiginlega þá yfir það versta, snjórinn var víða fjórir og hálfur til fimm metrar á þykkt.“

Kristmundur vinnur hjá sjálfum sér og á hjólaskófluna sem ber snjóblásarann en sá er í eigu Vegagerðarinnar. „Ég sé um að moka Vatnsskarðið yfir á Borgarfjörð eystri yfir veturinn og hef vélina þar en sótti hana í þetta verkefni,“ segir hann og kveðst hafa sinnt því nokkrum sinnum áður enda viti hann nokkurn veginn hvernig landið liggi. „Svo er það spurning um að finna veg. Stikurnar ná ekki upp úr fönninni nema á stöku stað svo þetta snýst um að þreifa fyrir sér og giska.“

Eina myndin sem náðist af Kristmundi sem leit undan um leið og hann sá í hvað stefndi!

Snjórinn er niðurbarinn og Kristmundur kveðst skafa hann niður. „Ég tek hann í lögum, svona eins og hálfs metra þykkt í einu, þannig að þetta er tímafrekt þó það hafi gengið ágætlega. Það hefur verið skínandi veður, sólskin en kalt. Ég bara sest inn í vélina þegar ég byrja og er þar þangað til ég kem heim, nenni ekkert að taka matar-eða kaffitíma, borða bara samlokuna meðan ég er að vinna. Nota tímann.“ Skyldi hann hafa séð eitthvað kvikt í náttúrunni, kom krummi kannski að taka út framkvæmdina? „Nei, ég hef ekkert séð krumma núna, er hann þó vanur koma þegar maður er einhvers staðar á heiðum. En ég hef séð nokkra smáfugla og margar nýlegar hreindýraslóðir.“

Bílstjórar sjá víða skammt fram fyrir sig í snjógöngunum sem Kristmundur var að gera og geta lent í að þurfa að bakka dálítið á næsta útskot, að hans sögn. „Kosturinn er sá að það eru ekki margir á ferðinni. Eflaust fagna Mjófirðingar samt opnuninni, hún er mánuði seinna en í fyrra.“ Nú á hann eftir að breikka alla leiðina. „Hún er bara ein breidd núna með smá útskotum, þannig að hægt sé að víkja annað slagið. Það tekur svona tvo daga að breikka veginn þar sem hægt er, býst ég við,“ lýsir hann. „Snjódýptin er auðvitað sú sama og í fyrri umferðinni en nú þarf ég ekki að leita að veginum.“

Eftir er að breikka göngin þannig að bílar geti mæst hvar sem er.