Tímamót

Sport og ljóðlist saman í eina sæng í Sunnusal

Tjarnarslamm verður í kvöld haldið í annað sinn og hefur nú fært sig um set, upp á aðra hæð Iðnó, hinn svokallaða Sunnusal. Þar munu reynslumikil ljóðskáld og áhugaskáld etja kappi og vera dæmd af fimm manna dómnefnd valdri úr hópi áhorfenda.

Jón Magnús og Ólöf Rún halda utan um Tjarnarslammið sem fram fer í kvöld. Aðsend mynd

Tjarnarslamm verður haldið í Iðnó í annað sinn í kvöld. Þarna munu, í Sunnusalnum á efri hæð Iðnó, etja kappi í ljóðalestri nokkrir reynsluboltar í bland við áhugafólk.

„Við erum í raun að reyna að starta þessari slammsenu hér á landi, hún hefur í raun aldrei náð fótfestu hér á landi. Þetta er partur af seríu sem við verðum með út árið og vonandi bara næstu ár,“ segir Jón Magnús Arnarsson, en hann og Ólöf Rún Benediktsdóttir eru skipuleggjendur slammsins.

Ljóðaslamm er keppni í ljóðlist þar sem flutningurinn skiptir töluverðu máli. Ljóðin eru því flutt fyrir áhorfendur með töluverðum tilburðum og það svo allt dæmt af dómnefnd sem er valin á tiltölulega óvenjulegan máta.

„Það eru valdir fimm dómarar úr áhorfendasal og þeir gefa einkunn frá 0,1 upp í 1,0. Flutningurinn er þrjár mínútur – þú mátt ekki vera með neina leikmuni, tónlist eða búninga – og þetta eru oftast þrjár lotur. Einhvern tímann útskýrði einhver ljóðaslamm þannig: þú tekur sport og ljóðlist og slengir því saman. Flutningurinn er því oftast meira lifandi, þetta snýst meira um að flytja ljóðið þitt fyrir áhorfendur frekar en þú sért með litlu vasabókina þína að tala um hvað vindurinn sé hægur á haustin. 

Meira að segja í heimsmeistarakeppninni, sem var haldin í París í fyrra t.d., þá voru bara valdir fimm dómarar úr áhorfendahópnum. Þannig að stelpan sem er heimsmeistari núna, Lisa Rasmussen, var valin af fimm ókunnugum Frökkum sem sögðu að hún væri best. Þeir voru bara í áhorfendasalnum í það skiptið. Það er kannski það sem er lifandi og skemmtilegt við þetta – þetta er ekki einhver dómnefnd  með stöðnuðum listaspírum eða ljóðskáldum sem dæmir, heldur er það áhorfandinn, sem ljóðið er hugsanlega samið fyrir.“

Jón segir að þetta sé ekki alveg jafn mikil keppni hérna heima enn sem komið er að minnsta kosti, eins og hún er úti í heimi. Þar eru riðlar og deildir og hvað sem það allt saman heitir – hér er þetta enn bara gert til skemmtunar og í góðum gír. Þó halda þau sig við keppnisskipulagið til að hafa ramma utan um keppnina.

Jón segir fyrra slammið hafa tekist mjög vel. „Við vorum hluti af opnunarhátíð Iðnó, þegar það var verið að opna það aftur í nýjum búning. Það var dagskrá allan daginn og mjög gaman. Nú erum við þó komin upp á efri hæð – það er mjög innilegt og þægilegt rými. Svo stækkar þetta bara og stækkar og við endum í Laugardalshöllinni auðvitað.“

Slammið hefst klukkan átta í kvöld. Viðburðurinn er studdur af Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafni Reykjavíkur.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Tíðar­andinn nær jafn­vel í gegn í kirkju­görðunum

Tímamót

Aðgengi fyrir allt árið hlaut umhverfisverðlaun

Tímamót

Við verðum í jólaskapi

Auglýsing

Nýjast

Garðurinn standsettur á undan baðherberginu

Skemmtistaðurinn Glaumbær brann

Heiðruðu fjölþjóðlegan hóp nýdoktora frá HÍ

Menningarteiti Teits haldið þriðja árið í röð

Drifinn áfram á kraftinum

Í dag verður reynt að lenda geimfarinu InSight á Mars

Auglýsing