Þú hittir aldrei á mig verkefnalausa en ég get alveg talað við þig núna,“ segir Matthildur Pálsdóttir, hjúkrunarforstjóri á Klausturhólum, þegar ég falast eftir símaviðtali og býðst til að fresta því ef hún sé í önnum. Hún er ekki að glíma við kórónaveiruna á sínum vinnustað, sem betur fer.

„Enn erum við íbúar Skaftárhrepps lausir við smit, að við höldum. Það væri mikið lán að sleppa, við erum það langt frá öllum björgum og starfslið heilbrigðisþjónustunnar fámennt,“ segir hún. „Við erum með krossaða fingur og vonum að þetta verði líkt og í gamla daga þannig að veiran berist ekki yfir jökulárnar og sandana. Einangrun gat þá stundum komið byggðarlögum til góða.“

Matthildur kveðst vissulega hafa gripið til sömu varúðarráðstafana á hjúkrunarheimilinu og aðrir í hennar stöðu. „Það hrynja inn tölvupóstar með leiðbeiningum og fyrirmælum frá landlækni og sóttvarnarlækni um þrif, umgengni og fleira. Hjúkrunarforstjórar hafa líka myndað fjarfundahóp og bera saman bækur sínar. Allir eru að reyna að gera rétt og læra hver af öðrum. Svo erum við eins og grýlur við hitt starfsfólkið!“

„Allir eru að reyna að gera rétt,” segir Matthildur Pálsdóttir, hjúkrunarforstjóri.

Nýr samskiptamáti

Líkt og aðrir íbúar hjúkrunarheimila á landinu er heimilisfólk á Klausturhólum einangrað frá ættingjum og vinum, til að forða því frá smiti. En með tækni og hugviti er ýmislegt hægt. Til dæmis fékk ein konan þar, Guðmunda Jónsdóttir, heimsókn frá dóttur sinni, Sigrúnu Sigurgeirsdóttur og þær töluðu saman í síma, hvor sínu megin við glugga. Því náði Matthildur á mynd. „Það var alger tilviljun að einhver sá þær mæðgur vera að spjalla saman og horfast í augu á meðan. Ég hljóp fram með símann, bað hana Mundu að líta til mín og smellti af. Þetta var frábær hugmynd hjá þeim og hún verður til þess að við þróum þessa aðferð áfram, að minnsta kosti með því að færa bekk að glugganum svo gesturinn þurfi ekki að krjúpa, eins og Sigrún gerði. Kannski göngum við lengra. Við erum með forstofu hér sem birgjar henda vörum inn í og þar fyrir innan eru læstar dyr með gleri. Ég er að hugsa um að hleypa gestum inn í forstofuna til að spjalla við sitt fólk hinum megin við glerið. Það er hlýlegra en að sitja úti. Kannski er einhver með lítið barn og langar að sýna það, þá er notalegra að geta komið inn. Hér eru nítján íbúar í tveimur dvalarrýmum og sautján hjúkrunarrýmum. Þeir eru allir á einni hæð og það auðveldar margt.“

Spjaldtölvan þarfaþing

„Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott,“ segir Matthildur og kveðst lengi hafa haft á stefnuskrá að fá myndsíma á heimilið (Skype) en ekkert hafi orðið af því fyrr en nú. Sú tækni hjálpi til að rjúfa einangrun heimilisfólksins. „Einn íbúinn fékk spjaldtölvu og lánar hana eftir þörfum þannig að við hlaupum með hana á milli. Þetta er að gera mikla lukku. Það er alveg nýtt fyrir fólkið hér að sjá þann sem það er að tala við gegnum síma - og jafnvel litla barnabarnið sem var að koma í heiminn.“

Matthildur segist líka hafa látið sér detta í hug að fara með íbúa Klausturhóla í bíltúra. „Við starfsfólkið gætum gert það, við umgöngumst þá hvort sem er. En heimilisfólkið hér gerir engar kröfur og er ósköp rólegt yfir ástandinu. Samt getur verið hyggilegt að takmarka áhorf á fundi og fréttir í sjónvarpinu, þó sumir þoli það alveg.“