Fimmtán ár eru liðin frá því að verslunin Spilavinir opnaði dyr sínar. Stofnandi segir spilamenningu á Íslandi hafa öðlast aukna vídd á undanförnum árum.

Í vikunni voru liðin fimmtán ár frá því að Svanhildur Eva Stefánsdóttir og Linda Rós Ragnarsdóttir opnuðu verslunina Spilavini. Þar hefur skapast og vaxið samheldinn hópur spilafólks sem sækir ýmist í að kaupa borðspil eða að sækja spilakvöld og kennslu.

„Þau sem voru svona fimm til sex ára þegar við vorum að opna eru núna komin í háskóla,“ segir Svanhildur Eva. „Ég sat með einum föstum gesti sem man þetta ekki öðruvísi en að við höfum verið til. Það er skemmtilegt að sjá hvernig svona gerist með tímanum.“

Þótt spilaáhugi landsmanna kunni að virðast ná hámarki um jólin segir Svanhildur Eva að fólk sæki í að kynnast nýjum spilum allan ársins hring.

„Við höfum fundið að við höfum náð meira inn á heimili og spil verið fastur liður hjá fólki,“ útskýrir hún. „Þegar fjölskyldan kemur saman þykir fólki gott að hafa spil til að eiga góða stund.“

Pílagrímsferð spilavinar

En hvernig er spilaáhugi Íslendinga í alþjóðlegu samhengi?

„Ég er núna á leiðinni á Spilamessuna í Essen í Þýskalandi þar sem tugþúsundir koma til að spila, bæði börn og fullorðnir,“ segir Svanhildur Eva. „Mekka spilanna er þannig eiginlega í Þýskalandi, Ísland hefur mikla hefð fyrir að eiga góða stund saman en við höfum verið að kynnast borðspilunum betur og betur.“

Svanhildur Eva segir að aukinn fjölbreytileiki hafi færst inn í spilamenninguna á Íslandi á undanförnum árum.

„Við getum verið í strategískum leikjum, spurningaleikjum eða partíspilum. Við getum öll fundið eitthvað við okkar hæfi.“

Spil og með því

Undir Spilavinum má svona finna kaffihúsið Spilakaffi þar sem gestir geta sest niður og spilað saman.

„Hingað koma fjölskyldur og vinahópar að spila og fólk kynnist og annað. Stór hluti af því sem við erum að vinna að er að bæta menninguna og koma upp einhvers konar öruggu umhverfi fyrir fólk sem þarfnast kennslu eða félagsskapar,“ segir Svanhildur Eva.

Er eitthvert spil í uppáhaldi hjá Svanhildi þessa dagana?

„Í minni fjölskyldu getur verið snúið að koma öllum saman en ég get fengið alla til að setjast niður í Family Inc. Það er bara fimmtán mínútna spil þar sem við byrjum bara að draga og spila,“ svarar hún. „Ef þú myndir spyrja mig eftir tvær vikur yrði það líklega eitthvert allt annað spil. Maður er alltaf að læra, finna nýtt og upplifa. Það er kannski það sem skiptir mestu máli.“