Verk Brynjars og Veroniku er hluti af yfirstandandi sýningu í Gerðarsafni, Einungis allir, sem er hluti listahátíðarinnar Cycle. Hringflautan samanstendur af fjórum þverflautum sem eru sveigðar að lögun og mynda samsettan hring en innan hans er pláss fyrir áheyranda. Til að tryggja eðlilega hljóðmyndun í flautunum eru munnstykki þeirra einu hlutar hringflautunnar sem ekki eru sveigðir. Hver hreyfing með hljóðfærið hefur áhrif á hina flytjendurna og getur haft áhrif á tónmyndun hvers flytjanda fyrir sig, Stöðugt líkamlegt samtal á sér því stað á milli flytjenda á meðan leikið er á hljóðfærið. Þetta samtal er áheyrendum hulið en birtist í smágerðum dansi flytjendanna og hreyfingu hljóðfærisins.

Flytjendur í dag eru þær Berglind María Tómasdóttir, Björg Brjánsdóttir, Melkorka Ólafsdóttir og Steinunn Vala Pálsdóttir. Á efnisskrá eru verk eftir Þuríði Jónsdóttur og Pauline Oliveros.

Hringflautan er hljóðfæri eftir hönnunartvíeykið Brynjar Sigurðarson og Veroniku Sedlmair (Studio Brynjar & Veronika), hannað fyrir tilstilli stofnunarinnar Fondation Galeries Lafayette árið 2016 og frumsýnt á samsýningunni „Joining forces with the unknown“ í París í október 2016. Eina núverandi eintak af hljóðfærinu var smíðað af franska flautusmiðnum Jean-Yves Roosen og er í eigu Fondation Galeries Lafayette.

Hringurinn er 2,5 m að þvermáli eða 7,8 m að ummáli. Innan hringsins er pláss fyrir áheyranda sem jafnframt er talinn vera órjúfanlegur hluti hljóðfærisins. Til að tryggja eðlilega hljóðmyndun í flautunum eru munnstykki þeirra einu hlutar hringflautunnar sem ekki eru sveigðir. Að öðru leyti virka flauturnar líkt og hefðbundnar flautur, þar sem klappakerfi, raddsvið og almennar fingrasetningar halda sér og má einnig leika á flauturnar sundurteknar án þess að það hafi áhrif á hljóðið.

Tónleikarnir hefjast klukkan 17.00 og er aðgangur ókeypis.

[email protected]