Verkefni mitt var að vinna sýningu upp úr hinni flottu bók Ránar Flygenring um Vigdísi forseta. Hún kom á réttum tíma, finnst mér. Vigdís er komin í hóp elstu kynslóðarinnar og það væri dapurlegt ef yngsta kynslóðin fengi ekki að upplifa kynnin við hana,“ segir Embla Vigfúsdóttir, hönnuður í bókasafninu í Gerðubergi. Hún kveðst hafa ákveðið að hafa sýninguna ekki of upplýsingahlaðna því foreldrar, afar og ömmur bæti svo miklu við þegar þau fara í gegnum hana með börnunum og segja frá sinni upplifun af Vigdísi og lífinu í landinu. „Mér fannst líka gaman að flétta sögu þjóðarinnar í sýninguna. Útvarpið byrjaði á Íslandi árið sem Vigdís fæddist. Sjónvarpið kom þegar hún var 36 ára, áður en hún varð forseti, svo landsmenn sáu hana þegar hún var í framboði. En á fimmtudögum var ekkert sjónvarp, bara hlustað á útvarpsleikritið.“

Vigdísarsýningin lenti í að vera lokuð lengi vegna veirunnar, eins og margt annað, en nú er búið að framlengja hana út mars. „Ég er voða ánægð með það, segir Embla. „En sýningin er máluð beint á veggina og það verður erfitt að mála yfir hana, því þá hverfur hún.“

Sérhæfð í spilahönnun

Embla lærði vöruhönnun í Danmörku og sérhæfði sig í spilahönnun. „Þeir sem voru með mér í námi voru mest að gera tölvuleiki en ég var alltaf að hugsa um borðspil. Mér finnst sjálfri gaman að spila og spil nýtast í daglegu lífi, til dæmis í námi. Ég vann hjá spilahönnunarfyrirtæki í Danmörku. Þar voru gerð spil fyrir atvinnuviðtöl, athugað hvernig fólk ynni undir pressu, hvernig það væri í samstarfi og slíkt. Mér finnst langskemmtilegast að læra gegnum leik, það gerist án þess að maður fatti það!“ Hún kveðst hafa gefið út eitt spil á Íslandi og er með eintak af því í Gerðubergi. „En ég nota líka kunnáttu í spilahönnun í vinnu minni hér innanhúss, til dæmis í Okinu, sem er rými fyrir unglingana. Nú er búið að stækka það og bæta tilraunaverkstæði við þannig að þar myndast gott sköpunarrými.“

Vinnur með Ævari

Þegar er byrjað að huga að næstu sýningu í Gerðubergi eftir að Vigdísarsýningunni lýkur um mánaðamótin mars/apríl. „Þá ætlum við að vinna með honum Ævari vísindamanni og gera bókasafnsráðgátu,“ lýsir Embla. „Það verður gaman.“