Sýr­lendingarnir hafa lent í sömu erfið­leikum og Ís­lendingar undan­farnar vikur og upp­lifað ein­angrun, vinnu- og tekju­tap, segir Liljana Milan­koska, hjúkrunar­fræðingur og verk­efna­stjóri Húna­þings vestra í mál­efnum flótta­manna. Þar settust 23 Sýr­lendingar að um miðjan maí 2019 og 21 á Blöndu­ósi.

Liljana segir mikla sam­vinnu hafa verið milli sveitar­fé­laganna undan­farið. „Við gerðum sam­eigin­legan Face­book­hóp fyrir sýr­lensku fjöl­skyldurnar og þar hefur túlkur sett inn upp­lýsingar á arabísku dag­lega vegna CO­VID-19,“ nefnir hún sem dæmi. „Til að kynnast í­búum hér, utan hópsins og stuðnings­fjöl­skyldnanna, hvöttum við flótta­fólkið í upp­hafi til að sækja í­þrótta­æfingar, jóga og sund og um­gangast al­menning en síðustu mánuði hefur það auð­vitað ekki virkað vegna sam­komu­bannsins,“ bendir Liljana á.

Eðli­legt að sakna

Nú eru sýr­lensku fjöl­skyldurnar að upp­lifa ramadan í fyrsta sinn á Ís­landi, frá byrjun til enda, en Liljana segir börnin enn of ung til að fasta. „Hefðin er sú að borða milli klukkan 22.30 til 03.40 en tíminn styttist miðað við sól­setur og sólar­upp­rás á Ís­landi og reynsla fólksins af ramadan hér er önnur en í gamla heima­landinu,“ segir hún.

„Í arabísku löndunum hægist á sam­fé­laginu á þessu tíma­bili, fólk þarf meiri svefn yfir daginn, orkan er lítil og skilningur sam­fé­lagsins á því er al­mennur, til dæmis hjá vinnu­veit­endum. Það er því eðli­legt að fólk finni fyrir heim­þrá meðan á þessari stóru há­tíð stendur og sakni venja tengdra henni, eins og að skiptast á matar­réttum við ná­grannana og hafa meiri fjöl­breyti­leika í mál­tíðum og næringu en ella.“

Vel þekkt er að líðan fólks sem flýr heima­land sitt og flyst í allt aðra menningu og um­hverfi er oft nokkuð góð í byrjun, að sögn Liljönu. Fólkið leggi sig allt fram um að að­lagast sam­fé­laginu og for­eldrar kapp­kosti að styðja börnin í að venjast nýju um­hverfi svo þeim vegni sem best bæði í skóla og utan. „En nokkrum mánuðum síðar kemur oft bak­slag og dýfa,“ segir hún. Þá getur fólk haft þörf fyrir að vinna úr á­föllum og ýmsum vanda­málum.

Hún tekur fram að í Húna­þingi hafi flótta­mönnunum staðið til boða að­stoð bæði frá ís­lenskum sál­fræðingi sem hafi oft unnið við mót­töku f lótta­manna á Ís­landi og einnig frá arabísku­mælandi sál­fræðingi frá Palestínu. „Það ætti að auð­velda fólki að opna sig ef það getur rætt á sínu móður­máli við sál­fræðing sem kemur úr sama menningar­heimi og um­hverfi og það sjálft.“

Upp­lifir sig heima

Liljana kveðst stolt af hópnum sem kom frá Sýr­landi á Hvamms­tanga og hvernig honum hafi gengið að takast á við erfið­leika, til dæmis of­viðri vetrarins og veiruna ill­ræmdu. „Fólkið er dug­legt og sam­vinnu­fúst og leggur sig fram um að að­lagast. Það er á­nægt með að búa á Hvamms­tanga og upp­lifir sig heima hér, svo al­mennt gengur mjög vel með verk­efnið.

En mér finnst líka mikil­vægt að fólkið finni sig ekki skuld­bundið til að vera á Hvamms­tanga eftir að verk­efninu lýkur, ef það langar annað. Ég hef oft sagt við það að um leið og fjöl­skyldurnar eru nógu sterkar til að geta gert það sem þær vilja, flytja, fara í nám eða aðra vinnu annars staðar og prófa eitt­hvað nýtt á Ís­landi, þá höfum við náð mark­miðum okkar.“


Lítið eitt um Liljönu

Liljana er hjúkrunar­fræðingur og loka­rit­gerð hennar fjallaði um sál­ræna vel­ferð sýr­lenskra flótta­barna á Ís­landi. Hún stundar nú meistara­nám í heil­brigðis­vísindum við HA og leggur á­herslu á sál­ræna líðan, á­föll og of­beldi. Sjálf hefur hún frætt nema í heil­brigðis­vísindum við HA um mót­töku flótta­manna á Ís­landi.