Álafosshlaupið er í dag og hefst klukkan sex í kvöld. Hlaupið verður frá Varmárvelli um austursvæði Mosfellsbæjar. Hlaupið er eftir merktum leiðum sem eru heldur óvenjulegar en hluti leiðarinnar er hlaupinn á reiðvegi og malarvegi. Í ár verður í fyrsta sinn boðið upp á tvær vegalengdir, fimm kílómetra og tíu kílómetra. Þátttakendum er boðið í sund í Varmárlaug að hlaupi loknu.

Sögufrægt hlaup

Kveikjan að hlaupinu var sigling Einars Péturssonar, bróður Sigurjóns, um Reykjavíkurhöfn á kappróðrarbáti sínum með hvítbláa fánann í skut þann 12. júní árið 1913.

Álafosshlaupið er sögufrægt hlaup en það var fyrst hlaupið árið 1921 að frumkvæði Sigurjóns Péturssonar á Álafossi. Kveikjan að hlaupinu var sigling Einars Péturssonar, bróður Sigurjóns, um Reykjavíkurhöfn á kappróðrarbáti sínum með hvítbláa fánann í skut þann 12. júní árið 1913. Fáninn var síðan tekinn í vörslu danskra varðskipsmanna og herma heimildir að atburðurinn hafi hleypt auknum krafti í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á þeim tíma. Ungmennafélag Íslands tók fánann síðar upp og gerði að sínum.

Framan af var hlaupið á milli Álafoss og Melavallarins í Reykjavík. Síðar færðist hlaupið í nágrenni Álafoss. Á síðasta ári var hlaupaleiðinni breytt lítillega til þess að lengja vegalengdina í tíu kílómetra. Teitur Ingi Valmundsson, einn af skipuleggjendum hlaupsins, segir standa til að endurvekja upprunalegu hlaupaleiðina á næsta ári.

Hlaup fyrir alla

„Í tilefni þess að á næsta ári verða 100 ár liðin frá því að Álafosshlaupið var fyrst hlaupið stefnum við á að halda sérstakt afmælishlaup. Þá stendur til að endurvekja gömlu hlaupaleiðina á milli Álafoss og Melavallarins.“

Hlaupið hefur verið haldið með hléum frá árinu 1921. Í kringum 100 manns hafa tekið þátt í hlaupinu síðustu ár og þátttakendur eru á öllum aldri. „Hlaupið er alltaf haldið þann 12. júní en þátttakan hverju sinni ræðst af því á hvaða vikudegi hlaupið lendir á. Skráning í hlaupið í ár er mjög góð eftir dræma þátttöku í fyrra. Það gæti verið vegna þess að við bættum við fimm kílómetrum í ár,“ segir Teitur. Enn er hægt að skrá sig til leiks.

„Þetta er stórskemmtilegt hlaup í krefjandi hlaupabraut. Á brattann er að sækja fyrri helming brautarinnar, síðan er farinn malarvegur eða stígar niður í móti en heildarhækkun í 10 km brautinni er um 110 metrar.“

Allir þátttakendur fá verðlaunapening og sigurvegarinn fær bikar að launum. Þá verða einnig veitt útdráttarverðlaun en dregið verður úr hlaupanúmerum þátttakenda.

Fyrir þá sem langar að hlaupa inn í helgina verður hægt að skrá sig í hlaupið í Vallarhúsinu við Varmárvöll frá klukkan hálf fimm í dag.

Skráning í hlaupið fer fram í Vallarhúsinu við Varmárvöll frá klukkan hálf fimm í dag.