Á árlegum jólatónleikum Söngsveitarinnar Fílharmóníu í Langholtskirkju 27. desember klukkan 20 verður frumfluttur jólasálmur eftir Arngerði Maríu Árnadóttur, organista í Laugarneskirkju, og séra Davíð Þór Jónsson sóknarprest þar.

Hún rifjar upp að rétt fyrir jólin í fyrra hafi hann sent henni skeyti á Facebook með nýortum sálmi. „Þegar ég las sálminn kom lagið eiginlega til mín um leið. Í kúrs í Listaháskólanum ákvað ég að útsetja sálminn fyrir kór og Fílharmóníu leist vel á hann.“

Þóra Einarsdóttir verður einsöngvari með sveitinni og einnig kemur fram tríó skipað Snorra Sigurðarsyni trompetleikara, Þórði Sigurðarsyni píanista, og Gunnari Hrafnssyni kontrabassaleikara. Efnisskráin verður í senn hátíðleg og með djassyfirbragði.

Sungin verða meðal annars lög eftir Jórunni Viðar, Sigvalda Kaldalóns og Jón Sigurðsson, ýmist í nýjum eða alþekktum útsetningum, auk sígildra jólalaga frá ýmsum löndum. Stjórnandi sveitarinnar er Magnús Ragnarsson.

Þá verður einnig fluttur Jólakötturinn úr kverinu Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum. Lagið samdi Ingibjörg Þorbergs en það kom fyrst út á plötunni Hvít er borg og bær fyrir jólin 1987. Sveitin flytur lagið í útsetningu Skarphéðins Þórs Hjartarsonar sem var fyrst gerð fyrir Söngkvartettinn Rúdolf er hann var sjálfur meðlimur í. Þá segir á Facebook-síðu söngsveitarinnar að það sé ágætis liðsstyrkur að langafabarn Jóhannesar úr Kötlum sé einn hópmeðlima.

Í hléi verður boðið upp á heitt súkkulaði og nýbakaðar smákökur.

Þessi tæplega sextugi kór skellti sér í kórakeppni í Flórens á Ítalíu í sumar og margt spennandi er á döfinni hjá honum, næst er það flutningur Sálumessu Mozarts með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

[email protected]

[email protected]