Mótið verður hjá okkur í Grundaskóla. Við erum með stóran sal með ágætu sviði og fleiri góð rými sem við getum notað fyrir smiðjur. Svo gista öll börnin í skólanum hjá okkur. Það er aðalsportið,“ segir Valgerður Jónsdóttir glaðlega. Hún er stjórnandi Skólakórs Grundaskóla á Akranesi og heldur utan um skipulag og framkvæmd Landsmóts barna- og unglingakóra sem þar verður haldið um helgina. 

Valgerður kveðst strax hafa byrjað með kór í Grundaskóla þegar hún hóf kennslu á Akranesi 2011. „Fyrst var ég með einn kór en nú er hann tveir aldursskiptir hópar, í yngri hópnum eru rúmlega 30 og um 20 í þeim eldri,“ lýsir hún og segir krakkana áhugasama. „Þeir eru duglegir að mæta á æfingar og sýna mikla gleði.“

Hún hefur áður farið á kóralandsmót með krakka. „Það er nauðsynlegt að vera búinn að sjá hvað hafa þarf í huga áður en maður tekur að sér skipulagningu svona móts,“ segir hún og nefnir að leitað hafi verið til tónlistarfólks og kennara á Akranesi með ýmislegt tengt mótinu auk þess sem stjórnendur kóranna komi að kennslu og hljóðfæraleik. Þá getur hún þess að æft verði nýtt tónverk eftir Elínu Gunnlaugsdóttur, það heiti Fögnuður og hafi verið samið sérstaklega fyrir mótið.

Landsmótin eru haldin annað hvert ár á mismunandi stöðum á landinu. Krakkarnir sem þar mæta eru í frá 5. bekk og upp úr. Flestir kórarnir sem hafa bókað sig núna eru af Suðvesturlandi og einn frá Akureyri. Valgerður segir áherslu lagða á að tengja mótið við lífið á Skaganum þannig að bæjarbúar geti átt von á að rekast á kóra á flakki um bæinn á laugardeginum. Nokkrir þeirra koma fram á Dvalarheimilinu Höfða og í Akraneskirkju og lokatónleikarnir eru öllum opnir.

Rauði þráðurinn í efnisvalinu eru tilfinningar, samkennd og jákvæðni, að sögn Valgerðar. Hún hvetur sem flesta til að mæta á lokatónleikana á sunnudaginn klukkan 13.30 í sal Grundaskóla og njóta öflugs tónlistarstarfs barna- og ungdómskóra á Íslandi.

gun@frettabladid.is