Hafnarfjarðarbær úthlutaði nýlega viðurkenningum fyrir snyrtileik og fegurð eigna, garða og gatna til íbúa og eigenda fyrirtækja og stofnana í bænum. Þar hlaut Karmelklaustrið við Ölduslóð veglegustu verðlaunin, heiðursskjöld Snyrtileikans 2020 fyrir hinn einstaka garð sem nunnurnar þar hafa séð um meira og minna sjálfar.

Karmelreglan varð til á Karmelfjalli í Palestínu og eftir því heitir fjall sem er í miðjum garði klaustursins í Hafnarfirði. Það var stofnað 1939 af hollenskum nunnum. Árið 1984 tóku Karmelnunnur frá Póllandi við því, þær eru tólf talsins í dag. Mikil ró og kyrrð hvílir yfir garði klaustursins og þar má finna griðastað fyrir hverja og eina nunnu, ásamt litlum bænhúsum. Hann er í senn lysti- og nytjagarður þar sem fjölbreytni er mikil. Systurnar báru strax í upphafi með sér nýjungar í grænmetisræktun og í gróðurhúsi þeirra eru ræktuð vínber og ávaxtatré.

Níu eigendur sérbýlishúsa fengu viðurkenningar fyrir fallega og vel hirta garða og Sólgarður að Óseyrarbraut 27b, fyrir að eiga snyrtilegasta garð við fyrirtæki. Stjörnugatan í ár er Birkiberg. Val til Snyrtileikans byggir alfarið á innsendum tilnefningum.