Íslandsbanki kynnir nýja lausn þar sem hægt verður að greiða fyrir verslun og þjónustu í öllum posum með símanum. Með þessu verður stigið stórt skref í átt að því að einfalda greiðslumáta korthafa. Lausnin verður kynnt ítarlega á næstu misserum og mun viðskiptavinum standa til boða að taka þátt í prófunum. Lausnin verður fyrst um sinn aðeins í boði fyrir Android-síma en er væntanleg fyrir iOSsíma innan tíðar.

Að undanförnu hafa verið kynntar fjölmargar nýjungar í kreditkortaappi bankans en hægt er að sjá stöðu korta í rauntíma, stilla heimild, frysta kort, sækja PIN-númer og sjá stöðu vildarpunkta. Einnig er hægt að dreifa kortareikningum og einstaka kortafærslum en Íslandsbanki er eini bankinn hér á landi sem býður upp á þann möguleika. Yfir fjórðungur þeirra viðskiptavina sem nýta sér greiðsludreifingu framkvæmir hana í appinu. Jafnframt er hægt að virkja tilboð í Fríðu í appinu þar sem viðskiptavinir fá afslátt endurgreiddan beint inn á reikning sinn.

„Við erum stolt af því að kynna nýjan greiðslumáta sem er hluti af okkar stafrænu vegferð sem fleygir fram. Við höfum lokið við skiptingu á grunnkerfum ásamt því að kynna til leiks fjölmargar lausnir sem viðskiptavinir eru ánægðir með,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.  Bankinn er  því  vel í stakk búinn undir þróun tækninýjunga. „Með þessari nýju lausn verður hægt að greiða fyrir verslun og þjónustu með símanum einum sem er mikil einföldun og bætir þjónustu okkar enn frekar,“ segir hún.