Það er viss sorg hjá unga fólkinu að þurfa að sleppa Sæludögum en aðstæðurnar eru óvenjulegar,“ segir Dagný Bjarnadóttir. Fjölskyldan var búin að tjalda í Vatnaskógi eins og margir fleiri þegar Sæludögum var aflýst eins og öðrum viðburðum helgarinnar.

„Það var búið að versla, pakka niður og reisa tjaldbúðir,“ lýsir Dagný og segir svæðið hafa verið opnað á miðvikudeginum. „Við vorum með tvö tjöld, tvíburasysturnar voru með nýtt tjald og settu það auðvitað upp sjálfar. Samkoman byrjar alltaf á fimmtudegi klukkan 19 og stelpurnar langaði að vera eina nótt einar, við hin ætluðum að koma á föstudeginum.“

Á miðvikudeginum kveðst Dagný hafa séð á svip starfsfólks að eitthvað lá í loftinu. „En við héldum að gestafjöldinn yrði innan settra marka. Svo horfði ég á fundinn á fimmtudeginum og strax á eftir kom tilkynning um að Sæludögum væri aflýst þetta árið.“

Ásta Kent, Freyja Traustadóttir, Alice Kent, Dagný Bjarnadóttir, Sólrún Steinsdóttir, Daníel Kent og Trausti Jónsson í Vatnaskógi.

Dagný segir Sæludaga hafa verið fastan punkt í tilverunni hjá fjölskyldunni frá því dæturnar, sem nú eru sautján ára, voru pínulitlar. „Hjá stelpunum byrjar árið eftir Sæludaga og endar á Sæludögum, því um leið og þeim lýkur eru þær farnar að hlakka til þeirra næstu. Strákurinn okkar var líka spenntur. Þetta er svo fjölskylduvæn samkoma, góður félagsskapur, frábær dagskrá og öruggt umhverfi – það er hugsað fyrir öllu. Veðrið átti að vera best á þessu svæði en við erum öllu vön, eigum góð tjöld og aðstaðan inni er góð. Þetta hefði orðið mjög gaman.“

Gestir Sæludaga tóku tjaldbúðirnar niður á fimmtudaginn hægt og rólega. Við leyfðum krökkunum að vera allan daginn og hitta fólk í góða veðrinu. Keyptum svo mat af mótshöldurum svo það verða litlir sæludagar heima um helgina, læri og hamborgarar og grillaðir sykurpúðar úti í garði.“