Stórafmæli? Já, ég er áttatíu og fimm ára kona og mér er efst í huga hversu lánsöm ég hef verið í lífinu. Maður gleymir því leiðinlega enda stendur í Biblíunni: Rífðu rót beiskjunnar úr brjósti þínu, það er gott heilræði,“ segir Guðrún Ásmundsdóttir, sem þjóðin þekkir fyrir leiklist sína og höfundarverk.

Spurð hvort hún búi ein, svarar hún: „Já, yfirleitt, en nú er sonardóttir mín, Rakel Mjöll Leifsdóttir, hjá mér og það er sko ekki leiðinlegt að skrafa við hana. Hún er söngkona í Bretlandi en er heima núna út af kófinu og fer þangað aftur þegar því léttir, því þar er hljómsveitin hennar. En er á meðan er.“

Guðrún furðar sig dálítið á þeirri verndun sem eldra fólk nýtur í þjóðfélaginu á veirutímanum og finnst sú umhyggja stinga í stúf við skerðingar á lífeyrissjóðs- og launagreiðslum þess. „Ég fékk heiðurslaun listamanna fyrir tveimur árum en andvirðið var tekið af mér. Ég má þó ekki vera bitur en mér finnst þetta dálítið fyndið,“ segir hún. Rifjar upp sögu um frumstæðan þjóðflokk sem henti gamla fólkinu ofan af hömrum þegar það var orðið til óþæginda. „Einn var á leið upp á hamar með föður sinn en ungur sonur hans elti. „Hvað ert þú að gera hér?“ spurði faðir hans. „Ég ætla bara að sjá hvað ég á að gera við þig,“ svaraði drengurinn.“

Ekki lætur Guðrún sér leiðast. Nú er hún nýbúin að skrifa barnabók um skordýr sem hún kveðst hafa geymt lengi í huganum og leyft að gerjast. „Ég bað Ragnar, son minn og vin, að myndskreyta bókina og hann hringdi klukkan tíu um kvöld. „Heyrðu, mamma, ég ætlaði að gera þetta fyrir þig af því ég er góður sonur en þetta er svo skemmtileg saga, vildi bara láta þig vita!“

Stafli af nýjum bókum bíður Guðrúnar, þær ætlar hún að lesa og gefa svo í jólagjöf. „Ég byrjaði á Ólafi Jóhanni,“ segir hún, „og nú er eins gott að hinir standi sig vel!“