Nemendur og starfsfólk Langholtsskóla eru nú í óðaönn að undirbúa sjötíu ára afmælisfögnuð skólans sem fer fram næsta laugardag. Hátíðarhöldin hefjast með skrúðgöngu, eftir hverja gestum verður boðið að skoða afrakstur þemavinnu nemenda um sögu skólans, horfa á skemmtiatriði og fá innsýn í skólastarf dagsins í dag.

„Ég byrjaði árið 2001 og er búinn að vera síðan, svo þetta er þriðja stórafmælið sem ég tek þátt í,“ segir Hreiðar Sigtryggsson skólastjóri um skólann sem var settur í fyrsta sinn þann 14. nóvember 1952. „Ég er í raun fimmti skólastjóri skólans á þessum sjötíu árum.“

Framsækni í fyrirrúmi

Langholtsskóli hefur alla tíð verið fjölmennur skóli og er í dag stærsti grunnskóli Reykjavíkur.

„Í gamla daga var þetta þannig að skólinn var jafnvel þrísetinn og þá voru nemendur um 1.200 þegar mest lét,“ útskýrir Hreiðar. „Á þeim rúmu tuttugu árum sem ég hef verið skólastjóri hefur nemendum fjölgað um 200 og eru í dag 725. Það er því oft þröngt á þingi en eins og kom fram nýlega þá stendur til að byggja við skólann.“

Einkenni Langholtsskóla segir Hreiðar vera sköpunargleði og framsækni.

Langholtsskóli var stofnaður þann 14. nóvember 1952.
Fréttablaðið/Ernir

„Einkunnarorð okkar eru virðing, vellíðan og skapandi skólastarf. Teymi kennara og annarra starfsmanna bera sameiginlega ábyrgð á nemendum sérhvers árgangs,“ segir Hreiðar og nefnir sem dæmi þróunarverkefnið Smiðjan í skapandi skólastarfi sem skólinn hlaut Íslensku menntaverðlaunin fyrir árið 2020. „Smiðjan byggist á verkefnamiðuðu námi þar sem við samþættum íslensku, samfélagsfræði, náttúrufræði og upplýsingatækni.“

Lært að læra

Þegar horft er fram á veginn segir Hreiðar að öllu skipti að skólastarfið sé í sífelldri þróun.

„Við viljum taka vel á móti börnum og sinna þeim vel, ekki bara námslega heldur á allra handa máta. Mikilvægt er að horfa til styrkleika nemenda og rækta þá svo sérhvert barn fái að njóta sín.“

Nám snýst þannig ekki bara um að taka inn þekkingu heldur að læra að nýta hana.

„Þegar krakkarnir sem eru að byrja hjá okkur núna í sex ára bekk verða þrítugir verður samfélagið væntanlega allt öðruvísi og störf sem ekki eru til í dag verða kannski viðfangsefni þeirra þegar fram í sækir. Skólinn þarf að mæta þessu,“ útskýrir hann. „Við þurfum að búa nemendur undir óræða framtíð. Ég vil gjarnan sjá nemendur okkar bera höfuðið hátt þegar þeir ljúka grunnskólagöngu sinni og tilbúna til að takast á við hin ólíkustu verkefni.“

Hreiðar er þannig í takti við Gísla Jónasson, fyrsta skólastjóra Langholtsskóla, sem sagði í ræðu við vígslu skólans: „Ýmsir álíta að í barnaskóla eigi að veita börnunum þá þekkingu, sem þau eiga að afla sér fyrir lífsstarfið. Að vísu væri það mikils vert en meira væri þó um það vert að vitneskja barnanna þroskaðist, athyglisgáfa þeirra glæddist og sjóndeildarhringurinn víkkaði.“