Sýningin Fjársjóðir sauðkindarinnar var opnuð á Byggðasafninu í Görðum á Akranesi í vikunni og stendur yfir fram á sunnudag. Þar sýnir listakonan og skólabílstjórinn Jósefína Morell safn sitt af munum og áhöldum sem hún hefur viðað að sér við verkun á ullinni af kindunum frá Giljum í Hálsasveit.
„Ég er voða mikið að spinna á rokk sem ég lærði fyrir rúmlega tuttugu árum síðan af henni Ástu í Kalmarstungu,“ segir Jósefína. „Hún sendi mér svo halasnældu sem er eitt elsta verkfæri heims. Þetta var rosa ávanabindandi og ég var alltaf að spinna á halasnældunni í kaffitímum og hesthúsinu.“
Jósefína spinnur aðallega ull af kindum af jörðinni sem hún á ásamt fyrrverandi manninum sínum, en hefur líka verið að fikta við kanínuhár og jafnvel tófuhár sem hún fær frá nágranna sínum sem er tófuveiðimaður. Áhuginn á ullinni var tilkomin fyrir hálfgerða tilviljun.
„Þegar ég var að flytja til Íslands sagði mér einhver að þá þyrfti ég að læra að prjóna,“ segir Jósefína sem kom hingað frá Svíþjóð. „Lopinn hér er fremur þykkur svo maður getur verið frekar fljótur að prjóna peysu.“
Hauskúpur og halasnældur
Það kennir ýmissa grasa á sýningunni. Þar má sjá ýmis konar rokka, til dæmis þann fyrsta sem Jósefína eignaðist, heimasmíðaðan frá Hollandi. Þá er einn nýrri sem kemur frá Nýja-Sjálandi og meira að segja einn rafmagnsrokkur sem Jósefína segir að henti vel þegar maður er heima með börnin. Þá hefur Jósefína til sýnis ýmist band og fatnað sem hún hefur unnið. Sumir munirnir koma þó úr allt öðrum áttum, eins og til dæmis hauskúpur.

„Ég hef verið að búa til málningu úr íslensku grjóti og svo hef ég verið að mála hauskúpurnar,“ segir hún og hlær. „Aðalstörfin mín eru að mála og að keyra skólabílinn en ullin hefur verið meira áhugamál.“
Er einhver munur í uppáhaldi hjá þér?
„Það hlýtur að vera halasnældan,“ svarar Jósefína. „Ég kynntist konu á Hrafnagili þar sem vinkona mín var að sýna og hún sendi mér halasnældu sem ég fór að spinna á. Svo keypti ég mér sjálf aðeins nýtískulegri snældu á netinu og hef aðallega verið að nota hana. Maður festist alveg í þessu!“
Endurnýtir gamlar hurðir
Þegar Fréttablaðið náði tali af Jósefínu var hún að gera sig tilbúna til að keyra með nemendur í Heiðaskóla í Hvalfjarðarsveitinni.
„Ég keyri inn Svínadalinn og til baka og enda á að taka mín börn. Þetta hentar mér mjög vel með mína aðalvinnu, að vera ekki föst í átta tíma á daginn einhvers staðar,“ segir hún og bætir við að skólabíllinn sé ekkert að þvælast fyrir ullinni. „Það er gott að hafa svona rútínu, að vakna snemma á morgnana, rúnta aðeins um sveitina og svo kemst maður heim og getur gert það sem mann langar.“
Og Jósefína situr svo sannarlega ekki auðum höndum þegar hún kemur heim til sín eftir rúntinn.
„Ég hef til dæmis verið að safna gömlum hurðum sem ég er að mála. Það er svo gaman að endurnýta hluti og nota það sem er til.“
Sýning Jósefínu er opin í dag og á morgun milli klukkan 13 og 17.