Sprett verður úr spori í Heiðmörkinni í dag, í tilefni þess að fyrr á árinu var þess minnst að sjötíu ár eru liðin frá því að hún var vígð og opnuð sem útivistarsvæði fyrir almenning. Hún hefur ótvírætt öðlast miklar vinsældir sem slík.

Bæði fastagestir og nýir áhugahlauparar fá nú að kynnast stígakerfinu í Heiðmörk og njóta þess að hlaupa í faðmi skógarins, til endurnæringar á líkama og sál.

Lagt verður af stað frá Borgarstjóraplani í hinn vinsæla tólf kílómetra Ríkishring klukkan 11 og í fjögurra kílómetra skemmtiskokk klukkan 13. Eftir hlaup verður boðið upp á kakó og ketilkaffi yfir varðeldi. Skráning fer fram á https://hlaup.is/vidburdir/heidmerkurhlaupid-03-10-2020/ Verðlaun verða veitt fyrir fyrstu þrjú sæti í Ríkishringnum í karla - og kvennaflokki og einnig útdráttarverðlaun. Vinningshafar fá jólatré frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur sem þeir geta nálgast á hinum árlega jólamarkaði við Elliðavatn aðventuhelgarnar fyrir jól.