Hér í Janusi er heildstæð læknisfræðileg endurhæfing þannig fólk kemur hingað í þessa iðju til að ná upp virkni. Allir sem koma hingað eru á leiðinni í vinnu eða skóla,“ segir Þórdís Halla Sigmarsdóttir, verkefnastjóri leiðbeinenda á iðjubrautinni. Hún er smíðakennari að mennt og var búin að vinna 19 ár í grunnskóla áður en hún skipti.

Hér eru mósaíkfuglar á flugi.

Þórdís segir um og yfir 40 manns sækja í iðjuna hjá Janusi endurhæfingu á hverjum degi. Þar er unnið úr ferskum viði á sérstöku tálgunarsvæði, á öðrum stað er glermósasík raðað saman í listmuni, draumfangarar og önnur hnýtingarverk verða til í einni deildinni og í annarri er saumað prjónað og heklað. „Við reynum að endurvinna og endurnýta ýmislegt sem við fáum gefins frá fyrirtækjum og einstaklingum. Sækjum okkur líka margt í náttúruna til að vinna úr,“ segir Þórdís og upplýsir að þau fóstri og grisji ákveðinn reit í Öskjuhlíðinni og sæki þangað tálgunarefni. „Svo seljum við munina á tvennum mörkuðum, sumarmarkaði og jólamarkaði, í þeim tilgangi að afraksturinn fari í styrktarsjóð fyrir þátttakendur. Þeir vinna verkin og ef þeir eru í tímabundinni, fjárhagslegri neyð geta þeir sótt um styrk. Þeir sem hljóta hann fá ekki beina peninga heldur kort fyrir matvöru. Þetta fyrirkomulag hefur lengi verið við lýði hér,“ segir hún og getur þess að jólamarkaðurinn verði á þriðjudaginn, 3. desember, milli klukkan 11.30 og 17.30, að Skúlagötu 19.

Hnýtt hengi og draumfangarar eru í tísku, að sögn Þórdísar Höllu.
Hörpuskeljaljósin veita milda birtu.