Í rúm þrjátíu ár hefur Álfheiður starfað í félagsstarfi aldraðra og leiðbeint þeim með margs konar handverk. „Ég hef kynnst yndislegu fólki í þessu hlutastarfi mínu sem ég er þakklát fyrir,“ segir Álfheiður. Hún hefur komið að fjölbreyttum sýningum á handverki eldri borgara en aldrei sett upp sýningu á eigin verkum, þar til nú.

Álfheiður segist hafa haft brennandi áhuga á hvers konar listsköpun frá barnsaldri en hafi átt erfitt með að einbeita sér að tilteknu listformi. „Ég hefði örugglega verið greind ofvirk og með athyglisbrest. Ég hef áhuga á öllu og hef alltaf haft mikla þörf til þess að stússast í einhverju og að skapa,“ segir hún.

Afleiðingin er sú að sýningin er afar fjölbreytt og til marks um það er elsta málverkið frá því að hún var 12 ára gömul. „Ég hef ekki tölu á öllum verkunum en þetta er bara hluti þeirra. Ég hef gefið mikið af verkum og selt nokkur,“ segir Álfheiður.

Álfheiður starfaði lengst af hjá Reykjavíkurborg sem leiðbeinandi auk þess sem hún sinnti slíku starfi í áratug þegar hún bjó ásamt fjölskyldu sinni í Búðardal.

„Af því er ég best veit þá er ég sú síðasta sem starfaði sem leiðbeinandi í félagsstarfi aldraðra hjá Reykjavíkurborg. Þetta starf var því miður lagt niður og það var svolítið sárt. Ég hafði hlakkað til að taka þátt í slíku starfi sjálf þegar ég væri komin á aldur.”

Þegar Álfheiður var komin á fimmtugsaldur ákvað hún að skella sér á skólabekk og ljúka stúdentsprófi af listabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti.

„Það atvikaðist þannig að ég var búin að vera að læra myndlist í Myndlistarskólanum. Þar lærði ég allt mögulegt og naut mín í botn. En allt í einu hækkuðu skólagjöldin svo mikið að ég flutti mig yfir í Fjölbrautarskólann og endaði sem stúdent,” segir Álfheiður.

Hún segist gjarnan hafa viljað fara í frekara nám í listum á háskólastigi en það breyttist þegar hún flutti í Búðardal. „Svona er bara lífið og ég syrgi það ekki,” segir hún.

Þrátt fyrir draumur hennar um háskólanám hafi setið verið sett á ís þá hefur hún verið dugleg að sækja námskeið og sérstaklega í postulínsmálun. „Ég lærði af Kolbrúnu Karlsdóttur, sem er okkar færasti postulínsmálari að mínu mati. Síðan hef ég farið á mörg námskeið og þar af nokkur erlendis. Það hefur verið mikið ævintýri og þeim ævintýrum er ekki lokið,” segir Álfheiður.

Hún segist vera nokkuð stressuð fyrir sýninguna en að vinir og vandamenn hvetji hana áfram. „Ég efa það stórlega að ég hefði látið slag standa ef ég hefði ekki fengið hvatningu og stuðning frá mínum nánustu. Dóttir mín er markþjálfi og hefur leynt og ljóst verið að markþjálfa mig og það er kannski kveikjan að þessu öllu saman. ,” segir Álfheiður Erla Sigurðardóttir, handverkskona og listamaður