Hann Gunnar Karel, listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga, á hugmyndina að hátíðinni Myrkrabörnum,“ segir Ragnheiður Maísól Sturludóttir, verkefnastjóri nýrrar tónlistarhátíðar fyrir börn, sem haldin verður á morgun, laugardag, frá 14.00 til 17.00. Hún segir tildrögin þau að á síðustu Myrku músíkdögum hafi verið boðið upp á barnaprógramm og það hafi verið svo vel sótt að grundvöllur hafi þótt fyrir einhverju stærra. „Við kýldum á það og gerðum sér dagskrá fyrir börnin. Þetta er sjálfstæð hátíð, afkvæmi Myrkra músíkdaga.“

Fókusinn verður á samtímatónlist, að sögn Ragnheiðar Maísólar. „Í ár eru þrír viðburðir á dagskrá, söngur Stúlknakórs Reykjavíkur og Auroru, í þeim síðarnefnda eru elstu dömurnar úr stúlknakórnum sem hafa haldið áfram. Þær syngja lög úr kvikmyndum, það elsta eftir Jórunni Viðar og einnig er tónlist eftir Hildi Guðna sem er að gera garðinn frægan. Eitthvað spinna stúlkurnar sjálfar og svo kemur Tinna Þorsteinsdóttir konsertpíanisti sem hefur tekið dótapíanó upp á sína arma, hún segir frá og verður með vídeó og fleira skemmtilegt. Tríóið Tríópa lokar þessari dagskrá, í því eru söngvararnir Hallveig Rúnars og Jón Svavar Jósepsson, ásamt Hrönn Þráinsdóttur píanóleikara. Þau bregða á leik og færa börnum á öllum aldri nýja, íslenska söngtónlist sem er samin með börn í huga.“

Ragnheiður Maísól segir fólk á öllum aldri velkomið meðan húsrúm í Kaldalóni leyfi. „Okkur þótti mikilvægt að börn væru þátttakendur í dagskránni, ekki bara áheyrendur. Aðgangurinn er ókeypis því kostnaður getur verið eitthvað sem fólk setur fyrir sig þegar menningarviðburðir eru annars vegar og okkur finnst gaman að hafa hátíðina aðgengilega öllum, fyrst við höfum tök á því. Við fengum styrk úr Barnamenningarsjóði, frá Landsbankanum og Sumargjöf sem gladdi okkur mjög. Börn eru áheyrendur og tónlistarfólk framtíðarinnar og þau eiga að hafa aðgengi að fjölbreyttri menningarflóru.“