Skáta­þing fór fram á Bif­röst um síðast­liðna helgi og var vel sótt. Þar tók Harpa Ósk Val­geirs­dóttir við stöðu skáta­höfðingja en hún segir ýmsar breytingar í vændum í skáta­starfinu.

„Þetta leggst rosa­lega vel í mig,“ segir Harpa Ósk. „Það er stór á­kvörðun að bjóða sig fram í svona em­bætti en ég er búin að sitja í þessari stjórn í fimm ár svo að verk­efnin eru ekki ó­kunnug.“

Einn af stóru punktunum sem kom fram á þinginu var hvernig Skátarnir geti skerpt á á­herslum sínum og gert starfið að­gengi­legra.

„Við viljum gera skáta­starfið að­gengi­legra fyrir öll börn,“ segir Harpa Ósk og nefnir sem dæmi börn sem búa á lands­byggðinni. „Þunga­miðjan hefur verið svo­lítið hér á höfuð­borgar­svæðinu en okkar langar að tengjast betur út á land og eins rétta fram höndina til annarra hópa á borð við börn sem glíma við erfiðar að­stæður eða skerta getu.“

Þá segist Harpa Ósk einnig vilja opna starfið frekar fyrir börn af er­lendum upp­runa.

„Okkur langar að finna nýjar leiðir til að bjóða þau vel­komin inn í sam­fé­lagið í gegnum skáta­starfið. Það var mikið rætt um Úkraínu og það flótta­fólk sem kemur til landsins og við viljum finna leiðir til að styðja við þau börn og ung­menni sem eru að koma.“

Nóg að gera

Á landinu öllu eru alls tuttugu og fjögur skáta­fé­lög og segir Harpa Ósk að það sé nóg að gera.

„Það eru tæp­lega tvö þúsund þátt­tak­endur í starfinu dags­dag­lega og til við­bótar við það eru þau ung­menni sem taka þátt í sumar­starfinu okkar,“ segir hún. „Í sumar verða svo fjögur stór mót fyrir hvern aldurs­hóp.

Það er mikið í pípunum á komandi mánuðum.“

Harpa Ósk hefur verið starfandi skáti síðan 1994. Það sem heillar hana mest við starfið er upp­eldið sem á sér stað innan hreyfingarinnar.

„Það er þessi verk­efna­stjórnun og leið­toga­þjálfun í rauninni. Maður byrjar að spreyta sig á að vera leið­togi kannski 13 til 14 ára sem er gríðar­lega mikill lær­dómur og mikið traust sem manni er af­hent,“ segir hún og bætir við að fjöl­breyti­leikinn í starfinu sé mikill. „Einn daginn lærir maður skyndi­hjálp, þann næsta stendur maður í pontu og þann þriðja er maður í fjalla­mennsku.“

Harpa Ósk segir að þessi lær­dómur í skátunum hafi kynnt sig fyrir því námi sem hún fór síðar í en hún er lærður hjúkrunar­fræðingur og ljós­móðir.

„Þessi gildi skáta­hreyfingarinnar, að maður eigi að vera til staðar fyrir aðra, sitja í manni. Maður reynir að skila til baka til sam­fé­lagsins,“ segir hún.