Skátaþing fór fram á Bifröst um síðastliðna helgi og var vel sótt. Þar tók Harpa Ósk Valgeirsdóttir við stöðu skátahöfðingja en hún segir ýmsar breytingar í vændum í skátastarfinu.
„Þetta leggst rosalega vel í mig,“ segir Harpa Ósk. „Það er stór ákvörðun að bjóða sig fram í svona embætti en ég er búin að sitja í þessari stjórn í fimm ár svo að verkefnin eru ekki ókunnug.“
Einn af stóru punktunum sem kom fram á þinginu var hvernig Skátarnir geti skerpt á áherslum sínum og gert starfið aðgengilegra.
„Við viljum gera skátastarfið aðgengilegra fyrir öll börn,“ segir Harpa Ósk og nefnir sem dæmi börn sem búa á landsbyggðinni. „Þungamiðjan hefur verið svolítið hér á höfuðborgarsvæðinu en okkar langar að tengjast betur út á land og eins rétta fram höndina til annarra hópa á borð við börn sem glíma við erfiðar aðstæður eða skerta getu.“
Þá segist Harpa Ósk einnig vilja opna starfið frekar fyrir börn af erlendum uppruna.
„Okkur langar að finna nýjar leiðir til að bjóða þau velkomin inn í samfélagið í gegnum skátastarfið. Það var mikið rætt um Úkraínu og það flóttafólk sem kemur til landsins og við viljum finna leiðir til að styðja við þau börn og ungmenni sem eru að koma.“
Nóg að gera
Á landinu öllu eru alls tuttugu og fjögur skátafélög og segir Harpa Ósk að það sé nóg að gera.
„Það eru tæplega tvö þúsund þátttakendur í starfinu dagsdaglega og til viðbótar við það eru þau ungmenni sem taka þátt í sumarstarfinu okkar,“ segir hún. „Í sumar verða svo fjögur stór mót fyrir hvern aldurshóp.
Það er mikið í pípunum á komandi mánuðum.“
Harpa Ósk hefur verið starfandi skáti síðan 1994. Það sem heillar hana mest við starfið er uppeldið sem á sér stað innan hreyfingarinnar.
„Það er þessi verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun í rauninni. Maður byrjar að spreyta sig á að vera leiðtogi kannski 13 til 14 ára sem er gríðarlega mikill lærdómur og mikið traust sem manni er afhent,“ segir hún og bætir við að fjölbreytileikinn í starfinu sé mikill. „Einn daginn lærir maður skyndihjálp, þann næsta stendur maður í pontu og þann þriðja er maður í fjallamennsku.“
Harpa Ósk segir að þessi lærdómur í skátunum hafi kynnt sig fyrir því námi sem hún fór síðar í en hún er lærður hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
„Þessi gildi skátahreyfingarinnar, að maður eigi að vera til staðar fyrir aðra, sitja í manni. Maður reynir að skila til baka til samfélagsins,“ segir hún.