Hugmyndin er mín og Steinunn Torfadóttir, lektor í lestrarfræðum, kom strax í verkefnið með mér. Það eru nokkuð mörg ár síðan við fórum af stað,“ segir Ragnar Ingi Aðalsteinsson og veifar nýrri bók. Sú er með vísum um hvern og einn bókstaf, ásamt lagi og litríkum myndum. Hún á að auðvelda börnum að læra að lesa.

Milli 40 og 50 manns hafa lagt vinnu í bókina,“ að sögn Ragnars Inga. „Við fengum stjörnuhagyrðinga, þá snjöllustu og bestu, til að yrkja um stafina. Hver um sig fékk einn staf. Margir ortu undir lögum sem þeir völdu sjálfir en stundum þurftum við að finna lög og í nokkrum tilfellum voru samin ný. Gylfi Garðarsson tónlistarmaður vann nótur að lögunum og gítargrip og fallegar myndir eftir Dagmar Agnarsdóttur fylla aðra hverja síðu. Dagmar er afskaplega flink og það er gott að vinna með henni.“

Ort við létt lög

Flest lögin í bókinni eru þekkt. „Hér eru lög eins og Litla flugan, Gamli Nói, Meistari Jakob og Sá ég spóa,“ bendir Ragnar Ingi á. „Svo eru nokkrar fallegar rímnastemmur. Heiða Guðný fjalldalabóndi orti um V-ið við eina létta stemmu.“

Hann raular:

V er eins og vísifingur

vilji burt frá löngutöng.

V sitt nafn með vinum syngur

vináttan er traust og löng.“

Hann heldur áfram að fletta bókinni. „Hér er nýtt lag eftir Sigurð Sigurðarson dýralækni við vísur hans um Ð-ið.

Fyrri vísan er svona:

Í stafrófi við eigum Ð

einir flestra þjóða.

Hann við skulum hafa með

heillastafinn góða.

Ragnar Ingi segir skáldin hafa verið samvinnuþýð og þolinmóð. Þau hafi fengið ófáar athugasemdir, ýmist frá honum eða Steinunni, henni hafi stundum þótt efnið of torskilið. „Steinunn vissi nákvæmlega hvað hún var að gera,“ tekur hann fram.

Fellur í góðan jarðveg

Stafavísnabókin er þegar byrjuð að seljast í skóla, að sögn ritstjórans. „Þetta efni er hugsað fyrir bæði leik- og grunnskóla, líka foreldra, afa og ömmur sem eru að sýna börnum stafina og syngja með þeim. Það virðist falla í góðan jarðveg,“ segir hann. „Svo er þetta allt komið inn á YouTube.com undir Stafavísur. Þar syngur Margrét Eir og Pétur Valgarð Pétursson og Þórir Úlfarsson spila með. Hugmyndin bak við það var sú að gera vandað efni sem létti börnum lestrarnám og veitti líka tilfinningu fyrir braghefðinni sem við höfum varðveitt hér á Íslandi í 1.200 ár. Þeim menningararfi eigum við að sýna virðingu.“

Það er Bókafélagið sem gefur út bókina.