Þennan dag árið 1990 sameinuðust Þýska alþýðulýðveldið og Sambandslýðveldið Þýskaland. Eftir síðari heimsstyrjöldina var Þýskalandi skipt í tvennt þar sem hernámssvæði Sovétmanna myndaði Þýska alþýðulýðveldið eða Austur-Þýskaland, og hernámssvæði bandamanna (Bandaríkjamanna, Breta og Frakka) myndaði Sambands lýðveldið Þýskaland eða Vestur-Þýskaland.

Með falli Berlínarmúrsins og lokum kalda stríðsins voru ríkin tvö sameinuð á ný. Berlín varð á ný höfuðborg Þýskalands en landið er fjölmennasta ríki Vestur-Evrópu og lykilmeðlimur í Evrópusambandinu.