Skákskóli Íslands styður við verkefnið með mánaðarlegum fjárhagslegum stuðningi til ársloka 2018 og nema greiðslurnar alls 1.170.000 króna. Fjármunina skal nýta til kennslulauna og annars kostnaðar. Auk þess veitir Skákskóli Íslands ráðgjöf og leiðbeiningar og útvega kennsluefni eftir því sem þörf krefur. Kennt verður á ákveðnum tímum vikulega samkvæmt stundatöflu. Allir nemendur 3. og 4. bekkjar fá skákkennslu og nemendur 5. bekkjar þar sem því verður við komið.

Samningurinn gildir á haustmisseri 2018. Samningsaðilar stefna að áframhaldandi skákþjálfun nemenda á vormisseri í ljósi þeirrar reynslu sem fæst á gildistíma, það er frá september 2018 til janúar 2019. Aðilar áforma áframhald kennslu á vormisseri 2019, þar með talið að haldin verði meistaramót í hverjum skóla og milli skóla á fyrstu tveimur mánuðum nýs árs.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir mikilvægt að ungmenni í bænum kynnist skáklistinni af eigin raun. „Ég held að skákin sé til þess fallin að þroska nemendur, efla rökræna hugsun og það hefur sýnt sig að taflmennska styrkir ungmenni í námi. Það er mikilvægt að Skákskóli Íslands komi að þessu verkefni með svo rausnarlegum hætti og því ber að fagna.“

Helgi Ólafsson, skólastjóri Skákskóla Íslands, segir að skákkennsla á Akureyri hafi sannað gildi sitt áður fyrr og muni gera aftur. „Skák þjálfar einbeitni og getur stuðlað að bættum námsárangri,“ segir hann.