Myndirnar á þessari sýningu eiga sér rót í djúpstæðri virðingu og trega vegna þeirra hrafnistumanna sem hafið hefur ekki hleypt í land. Sjóslys hafa sótt á huga minn á seinni árum,“ segir Hjördís Henrys­dóttir sem í dag opnar sýningu í Listasal Mosfellsbæjar.

Faðir Hjördísar, Henry Hálfdánarson, var framkvæmdastjóri Slysavarnafélags Íslands og hún ólst upp við að hann var alltaf á vakt, á nóttu sem degi. „Við börnin heyrðum hann sinna loftskeytastörfum að heiman á nóttunni, ræsa út björgunarsveitir og stjórna aðgerðum, oftast vegna manna í sjávarháska. Þá hugsaði maður sterkt til barnanna sem áttu pabba á sjónum. Ég þekkti líka marga á sjónum, foreldrar mínir eru báðir að vestan og það var mikil sjósókn í þeirra fjölskyldum. Móðurafi minn sem reri frá Ísafirði á litlum bát með son sinn með sér lenti oft í kröppum sjó en bjargaðist alltaf og dó í elli. Ein mynd á sýningunni heitir Afi minn er róinn.“

Ein myndanna sem er til sýnis heitir Afi minn er róinn. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Nóttina sem Hjördís fæddist, 9. febrúar 1946, gerði aftakaveður, að hennar sögn. Fjöldi báta var á sjó, 20 manns fórust en aðrir björguðust í land við illan leik. „Pabbi var í símanum og mamma inni í hjónarúmi að fæða. Eldri systkinum mínum er þessi nótt minnisstæð. „Það var nú meira veðrið nóttina sem þú fæddist,“ segja þau þegar þau koma í afmælisveislur til mín.“

Hjördís kveðst ekki hafa upplifað missi nákominna ættingja í hafið, nema gegnum frásagnir. „Pabbi slapp því mannbjörg varð þegar skipið sem hann var loftskeytamaður á, Hannes ráðherra, strandaði undan Músaskerjum á Kjalarnesi 1938 og eyðilagðist en föðuramma mín missti tvo menn í sjóinn. Hún fæddi sjöunda barnið um það leyti sem seinni maðurinn fórst, hann náði aldrei að sjá það.“

Hafið er þriðja einkasýning Hjördísar. Hún kveðst líta á hana sem minningarathöfn. „En ég vil líka halda því á lofti að björgunarsveitir landsins hafa unnið mörg þrekvirki gegnum tíðina. Nú fer þeirra starf meira fram á fjöllum en sjó, eins og áður var.“