Hvað er svona merkilegt...? er yfirskrift árlegs málþings bókabæjanna austanfjalls sem fram fer í Tryggvaskála á Selfossi á morgun, 7. mars, og hefst klukkan 19. Síðasta málþing nefndist Kerlingabækur en nú er sjónum beint að karlabókmenntum. Ásta Kristín Benediktsdóttir íslenskufræðingur og Einar Kári Jóhannsson bókmenntafræðingur fjalla um karlmennskukomplexa Elíasar Mar og karlmennsku í íslenskum stríðsbókum.

„Lengi voru flestar bækur karlabækur en nú getur maður látið sér detta í hug hið gagnstæða því konurnar sækja svo hratt fram,“ segir Bjarni Harðarson, útgefandi og bóksali. „En hvað eru karlabókmenntir? Í fornbókabúðinni minni er skúffa með vafasömu lesefni sem var vinsælt að gefa út og selja á skuggsælum stöðum. Líklega voru það, með vissum hætti, karlabækur en margt fleira kemur til greina. Á seinni árum hefur meira verið horft á hvað séu kvennabókmenntir.“

Bjarni er einn rithöfundanna í pallborði sem velta fyrir sér hugtakinu karlabókmenntir. Hinir eru Auður Ava Ólafsdóttir, Hallgrímur Helgason og Ragnar Jónasson. Kynnar verða Harpa Rún Kristjánsdóttir og Jón Özur Snorrason, skipuleggjendur þingsins.

Boðið verður upp á leiklist og tónlist. Bræðurnir Gústav og Ólafur Stolzenvald flytja líka kontrakvæði með karlmennskuívafi og Leikfélag Ölfuss sýnir brot úr Saumastofunni eftir Kjartan Ragnarsson. Ókeypis aðgangur er meðan húsrúm leyfir.