Sjónlýsingarleiðsögn verður í boði fyrir blinda og sjónskerta í Árbæjarsafni á laugardag en við sjónlýsingu þarf að horfa öðruvísi á hlutina en maður er vanur.

Árbæjarsafnið býður blindum og sjónskertum upp á sjónlýsingarleiðsögn á morgun klukkan 15. Þar munu Þórunn Hjartardóttir og Guðbjörg H. Leaman stýra ferðinni en þær hafa unnið saman við sjónlýsingar í um áratug.

„Það þarf í rauninni að horfa öðruvísi á hlutina en maður er vanur,“ segir Þórunn, um hverju þurfi að huga að þegar sjónlýst er. „Það er svo margt sem okkur finnst svo augljóst og við myndum venjulega aldrei fara að lýsa, en þarf að lýsa. Til dæmis var áður fyrr kannski boðið upp á sjónlýsingu á myndefni fyrir sjónvarp, en ekki fyrir fjarstýringuna.“

Í leiðsögninni á morgun verður gengið um safnsvæðið, en Þórunn segir dagskrána ekki fullmótaða þar sem hún muni fara eftir aðstæðum og þátttakendum.

„Auðvitað náum við ekki að skoða nema brot af því sem er á Árbæjarsafni, enda svo margt skemmtilegt að skoða,“ segir hún. „Það fer líka aðeins eftir áhugasviði þeirra sem koma hvað við endum á að skoða, svo þetta verði sem skemmtilegust upplifun fyrir alla.“

Flókið ferli

Þórunn og Guðbjörg kynntist fyrst sjónlýsingum árið 2012 þegar Blindrafélagið stóð fyrir námskeiði á vegum doktors Joels Snyder sem hefur kennt fræðin víða um heim.

„Blindrafélagið styrkti þátttakendur á námskeiðinu gegn því að þeir tækju mögulega þátt í verkefnum sem kæmu upp,“ segir Þórunn. „Það voru tíu manns sem kláruðu námskeiðið en eftir fyrstu verkefnin hélt enginn þessu áfram nema við tvær, eftir því sem við best vitum. Svo höfum við sótt nokkrar alþjóðlegar ráðstefnur sjónlýsenda og fengist við ýmis verkefni.“

Verkefnin sem ber á borð sjónlýsenda eru fjölbreytt og segir Þórunn verklagið og lýsingarnar ólíkar eftir viðfangsefninu hverju sinni.

„Í haust verður þriðja serían af Ófærð sýnd á Netflix og við vorum í fyrsta skipti fengnar til að semja sjónlýsingu á íslensku fyrir íslenska þáttaröð. Ég þýddi svo sjónlýsingu á Kötlu og Broti fyrir Netflix. Það er svolítið skrítið að þessar seríur hafi allar fengið sjónlýsingu á Netflix en ekki þegar þær voru sýndar hér.“

Getur ekki verið flókið að sjónlýsa svona þáttum?

„Jú, það er svo stuttur tími sem maður hefur til að skjóta inn orðum, velja hverju þurfi að lýsa og hvaða orð eigi best við, með sem fæstum atkvæðum.“

Sjónlýsingin á safninu á morgun er ókeypis og er blint og sjónskert fólk boðið sérstaklega velkomið.