„Ég fór að hugsa að það væri eiginlega enginn eftir sem gæti sagt frá þessum hlutum af eigin reynslu nema ég,“ segir Sigurður Sigurðarson dýralæknir sem gaf nýlega út tvö fróðleikskver um geitur og sauðfé á Íslandi.

Sigurður er málefninu ansi kunnugur en hann starfaði framan af sem sérfræðingur Sauðfjárveikivarna og síðar sem dýralæknir sauðfjár- og nautgripasjúkdóma og sem forstöðumaður Rannsóknadeildar dýrasjúkdóma sem staðsett var á Keldum. „Ég var búinn að vinna á Keldum í 40 ár og þekkti þessi mál frá þeim langa tíma þótt ýmislegt hefði auðvitað gerst áður en ég kom til sögunnar árið 1963,“ segir hann.

Ein helsta kveikjan að baki kverunum segir Sigurður að sé baráttan við smitsjúkdóma sem hafa borist til landsins með innflutningi. „Mig hefur sviðið ákaflega hvað það er lítill skilningur á því hjá þeim sem telja sig geta grætt á innflutningi hve mikil hætta getur fylgt þar á eftir.“

Arfur frá landnámi

Í fyrra kverinu er að finna almennan fróðleik um geitur og sauðfé á Íslandi, sögu þeirra og fleira. Þar má meðal annars finna kort yfir örnefni á Íslandi sem kennd eru við geitur. „Þau eru minnst tvö hundruð,“ segir Sigurður en bætir við að hann hafi fengið bréf frá manni á Norðvesturlandi sem bætti enn í. „Þar bættust við ein tíu örnefni í viðbót.“

Sauðkindin og geitin hafa fylgt Íslendingum frá landnámi. Sigurður bendir á að enginn innflutningur hafi átt sér stað á geitum síðan þá. „Þetta er hreinn landnámsstofn,“ segir hann. „Hins vegar hafa verið fluttar út geitur, enda er þetta ansi einstakur stofn. Þelið á íslensku geitinni er mun ríkulegra en á öðrum, nema þá kannski kasmírgeitum.“

Karakúlsjúkdómarnir

Í öðru kverinu er svo fjallað um sögu smitsjúkdóma í geitum og sauðfé á Íslandi, meðal annars það stórslys þegar Karakúlféð svokallaða var flutt með falsvottorðum frá Þýskalandi til Íslands árið 1933.

„Háskólabúið í Halle í Þýskalandi ræktaði geitur sem fluttar voru austur úr Asíu,“ segir Sigurður. „Menn vildu fara að flytja inn því það var mikið hallæri og þrengingar út af ýmsum fjármálahöftum. Það virtist gróðavænlegt að flytja inn þetta Karakúlfé til að fá skinnin sem þóttu mjög falleg.“

Féð flutti hins vegar með sér fjóra nýja smitsjúkdóma og ávinningurinn af eiginleikum hins innflutta kyns var verri en enginn. Sjúkdómarnir voru votamæði, þurramæði, visna og garnaveiki og fengu síðar viðurnefnið Karakúlsjúkdómarnir.

Kverin tvö gefur Sigurður út á eigin vegum en hann hefur þau til sölu á kostnaðarverði og sendir þeim sem óska. Þau fást ekki annars staðar.

„Ég var búinn að leita til stjórnvalda til að fá aðstoð við að koma þessu út, en það var enginn sem virtist hafa neinn áhuga,“ segir hann. „Ég hugsaði sem svo að ef ég gerði þetta ekki sjálfur myndi þetta deyja út svo ég gerði þetta bara á eigin spýtur. Ég sá fram á að ef ég gerði þetta ekki myndi enginn gera þetta.“