Síðastliðinn föstudag, á degi íslenskrar náttúru, afhentu Landmælingar Íslands Landsbókasafni Íslands fornkortasafn sitt til eignar og varðveislu. Í safninu má finna bæði sérkort af Íslandi og kort þar sem Ísland er sýnt með öðrum löndum.

„Þetta eru 52 kort sem við munum nú bæta við í kortasafnið okkar,“ segir Jökull Sævarsson, sérfræðingur hjá Landsbókasafni, um þessa gjöf Landmælinga Íslands. „Það eru þarna fimm kort sem við eigum ekki fyrir, svo það er mikill fengur í þessu safni.“

Landkynning biskups

Í kortasafninu má finna tvö af merkari Íslandskortum sögunnar sem gerð voru undir lok sextándu aldar af kortagerðarmönnunum Abraham Ortelíusi og Gerhard Mercator.

„Þetta eru í rauninni fyrstu kortin sem sýna Ísland nokkurn veginn eins og það lítur út í dag,“ útskýrir Jökull. „Áður vissu menn bara að það væri einhver eyja hérna sem héti Ísland en vissu ekki hvernig hún væri í laginu.“

Íslandskort Ortelíusar frá 1590.
Mynd/Landsbókasafn

Kortin tvö eru tilkomin fyrir tilstilli Guðbrands Þorlákssonar biskups sem fannst ekki nógu gott hvernig Ísland var sýnt á kortum á þessum tíma.

„Hann gerði þess vegna sjálfur handdregið kort af Íslandi sem hefur því miður glatast, en það er vitað að það barst til Evrópu og komst fyrir sjónir hjá þessum frægu kortagerðarmönnum, Ortelíusi og Mercatori,“ segir Jökull. „Þeir létu gera eftirmyndir af því og prentuðu í Atlas-verkum sínum sem þeir voru að gefa út á þessum tíma.“

Umfangsmikið safn

Landsbókasafn Íslands heldur úti vefnum islandskort.is sem stofnaður var árið 1997 þar sem lagt er upp með að birta myndir af öllum Íslandskortum sem gefin hafa verið út frá upphafi og fram á síðustu öld. Á vefnum má finna um eitt þúsund myndir af kortum af Íslandi, þau nýjustu gerð af bandaríska setuliðinu á Íslandi eftir stríð.

„Þetta var fyrsta stafræna verkefnið sem við settum af stað hérna í safninu,“ segir Jökull. „Kort eru yfirleitt frekar viðkvæmt safnefni svo það er mun betra fyrir notendur að hafa þau aðgengileg á netinu.“

Mikil natni er lögð í vefinn og hverju korti fylgja upplýsingar um útgáfuár, land og höfund ásamt frekari sögu.

Öll kortin í gjöf Landmælinga eru prentuð nema eitt sem er handdregið. „Það sýnir Ísland við upphaf nítjándu aldar og er sagt vera eftir mann að nafni N. Prieur en ekki var áður vitað að neinn með því nafni hefði gert kort af Íslandi,“ segir Jökull. „Það er merkilegt kort sem þarf að rannsaka betur en við höfum því miður ekki myndað það enn þá.“