Selfyssingurinn Sigmundur Stefánsson fagnar sjötugsafmæli í dag með ansi óhefðbundnu móti. Í tilefni dagsins hyggst hann hlaupa heila sjötíu kílómetra, eða eina sjö Simmalinga, og safna áheitum til styrktar Hjartaheillum og Krabbameinsfélagi Árnessýslu.
„Neinei, ég held að það sé nú ekki,“ svarar Sigmundur hvergi banginn aðspurður hvort þetta sé nú ekki fullmikið. „Þetta byggist auðvitað á því að þú þarft að hafa undirbúið þig vel og lengi, bæði hlaupalega og ekki síður hugarfarið – að hausinn sé rétt skrúfaður á!“
Sigmundi innan handar verða hlaupafélagar hans í Frískum Flóamönnum og stefnt er á að hlaupið taki tíu tíma.
En hvernig undirbýr maður sig fyrir svona þrekvirki á sjötugsafmælisdeginum?
„Ég er búinn að vera að stefna að þessu núna í ár og það er fyrst og fremst að safna kílómetrum í lappirnar. Það er mikilvægt að venja líkamann á áreitið sem þetta er á líkamann. Síðustu dagarnir og vikurnar eru svo í sjálfu sér bara hvíld. Maður er ekkert að bæta sig í getu svo það þarf að trappa sig niður.“
Áföll eru ekki endalok
Sigmundur hefur nú verið á hlaupum í rúmlega tuttugu og fimm ár en hann var mikið í íþróttum í æsku.
„Þegar maður var að koma upp fjölskyldu þá var ekki mikið um sportið, en þegar börnin voru komin upp og maður var búinn með veraldlega braskið þá fór okkur hjónin að kitla aðeins í hreyfingu,“ segir Sigmundur sem stundar bæði hlaup, fjallgöngur, skíði og annað fjör með eiginkonu sinni.
Ástæðuna fyrir því að Sigmundur ákvað að leggja í sjötíu kílómetrana segir hann eiga rætur að rekja í veikindi sem hann hefur gengið í gegnum á seinustu misserum.
„Fyrir einu og hálfu áru síðan fór ég í opna hjartaaðgerð og sex mánuðum áður hafði ég farið í meðferð gegn krabbameini í blöðruhálskirtli,“ útskýrir hann. „Ég var í mjög góðu formi og þegar ég var farinn í gegnum þetta ferli þá langaði mig að benda á það að lífið sé ekki búið þótt maður lendi í svona áföllum. Þú getur haldið áfram og jafnvel bætt í.“
Heimalningur á Selfossi
Simmalingur, sjö kílómetra hringurinn sem Sigmundur hleypur, dregur heiti sitt af orðinu heimalningur.
„Ég er fæddur Selfyssingur og vann við forstöðu sundlaugarinnar og hjá bænum helming ævi minnar eða um þrjátíu og fimm ár. Fæðingarheimili mitt er þarna við hliðina á, þannig að ég er eiginlega heimalningur á þessu svæði þarna á Selfossi. Þess vegna köllum við hringinn Simmaling.“
Á ég þá að bjalla í þig þegar þú verður sjötíu og sjö ára og tekur þá væntanlega ellefu Simmalinga?
„Það er spurningin,“ svarar Sigmundur og hlær. „Ég sagði nú við einhvern að þegar ég verð áttræður þá fer ég kannski ekki áttatíu kílómetra heldur tíu, fyrst ég verð nú búinn með þessa sjötíu!“
Sigmundur hleypur af stað frá sundlauginni klukkan 7 í dag. Á Facebook-síðu Frískra Flóamanna má finna hlekk til að nálgast áheitasöfnun en einnig er hægt að hafa beint samband við Hjartaheill og Krabbameinsfélag Árnessýslu í gegnum síma.