Sigurður Sigmarsson var fæddur 23.10.29 í Aðalstræti 23, í Innbænum á Akureyri.

Foreldrar hans voru Sigmar Hóseasson og Hólmfríður Kristjánsdóttir sem dó ung frá sjö börnum.

Bróðir Sigurðar, Helgi Marinó, býr í Vestmannaeyjum. Önnur systkini hans, Kristín Helga, Sigríður, Ingvar Hóseas, Judith Ingibjörg og Salla Ragna eru látin. Hálfsystkini hans samfeðra eru Sigurður Ingi, Magnea Stígrún og Guðlaug og er Sigurður Ingi látinn.

Faðir Sigurðar hélt heimili með börnum sínum í tvö ár eftir fráfall Hólmfríðar og voru systur hans ráðskonur hjá honum. Eftir það var börnunum komið fyrir hjá fósturforeldrum og var Sigurður tekinn í fóstur árið 1936 að Hamri á Þelamörk af systkinunum Hallfríði og Þorleifi Rósinkrans en Sigmar og þau voru systrabörn. Sigurður var hjá fósturforeldrum sínum til 27 ára aldurs en þá fór hann til Akraness að vinna í frystihúsinu Heimaskaga og var þar í 3 vetur en heima á Hamri á sumrin.

Árið 1960 fluttist Sigurður til Akureyrar og tveimur árum síðar hóf hann störf í útibúi Kaupfélags Eyfirðinga í Strandgötu en kjörbúðin var gjarnan nefnd Alaska. Vilhelm Ágústsson var þar útibússtjóri en árið

1964 tók Sigurður við búðinni. Gegndi hann því starfi næstu tvo áratugina og þekktist af flestum Akureyringum sem og nærsveitungum sem Siggi í Alaska. Alls vann hann rúma þrjá áratugi hjá KEA, í gömlu matvörudeildinni og síðast í útbúinu í Sunnuhlíð.

Árið 1963 kynnist Sigurður Birnu Ingibjörgu Egilsdóttur. Hún var fædd

13.10.34 í Hjaltastaðakoti í Blönduhlíð. Hún andaðist 6.11.06. Hann og Birna gengu í hjónaband 24.10.64. Fóstursonur þeirra er Helgi Jónsson og á hann dótturina Nótt Magdalenu.

Sigurður og Birna bjuggu á ýmsum stöðum á Akureyri. Síðustu árin dvaldi hann á Dvalarheimilinu Hlíð. Þar naut hann góðrar umönnunar sem fjölskylda hans er mjög þakklát starfsfólki þar fyrir hana, sérstaklega fólkinu á Grenihlíð, sem sýndi Sigurði einstakan hlýhug. Hann andaðist á Hlíð 2. september.

Útför Sigurðar fer fram frá Akureyrarkirkju þann 10. 9. kl. 13:30.

------

Elsku pabbi og afi!

Þakkir fyrir yndislegt uppeldi og alla þá ást sem þú sýndir mér. Hún verður aldrei nóg þökkuð.

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín svo blundi rótt.

(Matthías Jochumsson)

þín Helgi og Nótt.