Það er bylur norður á Ströndum og Ragnar Bragason, bóndi á Heydalsá, er eiginlega veðurtepptur heima hjá sér, þegar ég næ í hann í síma. Annars væri hann að sinna rúningi á öðrum bæjum. Hann bindur ekki á sig skíðin þennan daginn en vann það afrek 1. mars að ganga Vasagönguna í Svíþjóð, milli Sälen og Mora, 90 kílómetra leið. Það gerðu líka fimm aðrir úr Skíðafélagi Strandamanna, þar af fjórir bændur, eins og bb.is greindi frá.

Ragnar fór brautina á 6,25 tímum, var rúmum tveimur tímum á eftir sigurvegaranum, að eigin sögn. „Ég var í góðu sæti í röðinni og það dugði mér til að verða fyrstur í mark af Íslendingunum sem voru um 40 sem luku göngunni.“ Hann segir það með fæsta móti, oft hafi þeir verið 60-70, kjarni sem fari nánast á hverju ári. „Það er gríðarleg stemning að taka þátt. Eftir því sem maður fer oftar togar gangan meira í mann. Umhverfið er flott þarna í skógunum, góð stemning í brautinni og einstök upplifun að klára. Sérstaklega er sigur að komast í mark í erfiðum aðstæðum.“

Allt í einu fór að snjóa

Þar sem snjólétt hefur verið í Norður-Evrópu í vetur segir Ragnar búið að aflýsa mörgum skíðagöngum í World-Loppet mótaröðinni. Svíar lögðu mikla vinnu, og á annað hundrað milljónir, í að framleiða snjó og keyra hann í þessa 90 kílómetra braut. „Það höfðu verið hlýindi í nokkrar vikur fyrir Vasagönguna en á keppnisdaginn fór allt í einu að snjóa og fimmtán sentimetra jafnfallinn snjór bættist í brautina svo gangan varð hæg og erfið og sporið hvarf fyrir þá öftustu.“

Eftir að Ragnar kom í mark kveðst hann hafa farið í sturtu, í hlý föt og fengið sér að borða. Síðan hafi hann komið sér fyrir við markið, með syni sínum Stefáni sem gat ekki tekið þátt vegna lasleika. „Við fylgdumst með fólki ljúka göngunni og eftir því sem á leið urðu bros þess breiðari og gleðin meiri við að ná settu marki.“

Sextán þúsund keppendur voru skráðir í Vasagönguna þetta árið, að sögn Stefáns, þar af voru fjórtán þúsund sem störtuðu. „Margir hættu við því þeir höfðu ekki getað æft sig vegna snjóleysis. Af þátttakendum voru um tvö þúsund sem náðu ekki tímamörkum, enda er þetta eins og að ganga 130-140 kílómetra við góðar aðstæður. Svo brýtur fólk stafi og skíði en það eru brautarverðir á ferðinni sem koma fólki til aðstoðar. Svo eru drykkjastöðvar með tíu til fimmtán kílómetra millibili og þar eru læknar líka. Allt skipulag er til fyrirmyndar hjá Svíunum.“

Þetta var í fjórða skipti sem Ragnar tekur þátt í Vasagöngunni. Fór fyrst 2009 með tveimur félögum af Ströndum og árið 2012 með konunni og tveimur krökkum. „Krakkarnir tóku þátt í Ungdóms-Vasa og konan í Hálf-Vasa en ég í 90 kílómetra göngunni. Svo kom hlé hjá mér þar til í fyrra, þá fórum við sjö af Ströndum. Aðstæður voru enn erfiðari en núna, mikil snjókoma, mótvindur og skafrenningur á köflum. Þá var líka sögulega lélegur tími hjá sigurveraranum. Tveir í okkar hópi veiktust fyrir gönguna en tóku samt þátt og fengu lungnabólgu í kjölfarið, annar varð að hætta á miðri leið vegna veikinda. Hann fór aftur í ár og gekk vel.“

Fjölskyldusport á Ströndum

Skíðafélag Strandamanna er rúmlega tvítugt. Ragnar er einn af stofnendum þess og hefur tekið virkan þátt í starfinu alla tíð. „Við höfum byggt upp aðstöðu í Selárdal í Steingrímsfirði, meðal annars skíðaskála, og fáum þangað fólk úr Reykhólasveitinni sem er öflugt í þessu sporti. Margir félagarnir eru úr bændastétt og það sem tengir okkur líka saman er að börnin okkar hafa verið að æfa skíðagöngu, þá koma foreldrarnir með. Þetta verður fjölskyldusport.“

Ragnar segir óvenjugóðar aðstæður til skíðagöngu á Ströndum í vetur, þær bestu í mörg ár. „Þetta hefur verið alvöruvetur og við höfum getað æft vel, þegar veður leyfir. Í Selárdal er mesti snjór síðan 1995. Við tókum upp á þeirri nýjung í vetur að bjóða upp á skíðagöngunámskeið, fengum gott fólk frá höfuðborgarsvæðinu til að kenna okkur. Þannig að starfið er metnaðarfullt.“