Því betur sem ég kynnti mér bakgrunn formæðra minna, því meira kallaði það efni á mig og ég ákvað að gera úr því bók,“ segir Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, íslenskukennari og höfundur heimildaskáldsögunnar Aldrei nema kona, sem var að koma út hjá Sæmundi. „Í upphafi bókar er sagt frá Ragnhildi sem er að fæða sitt fyrsta og eina barn, 48 ára gömul. Út af henni eru allar hinar sem við sögu koma en ég einbeiti mér að ævi tveggja þeirra og skálda í eyðurnar,“ lýsir hún.

Sveinbjörg hefur kennt íslensku við framhaldsskóla í yfir 40 ár en kveðst aldrei hafa skrifað skáldsögu áður. „Systur mínar hafa gengið gegnum þá eldskírn og gáfu mér góð ráð. Svo er ég í fjarbúð með sagnfræðingi sem er ættfræðigrúskari, hann kenndi mér að leita í kirkjubókum og kom mér á kaf í ættfræðirannsóknir,“ segir hún en tekur fram að hún hefði aldrei getað skrifað þessa bók nema af því að hún hafði sjálf ákveðna lífsreynslu. „Ég er ekkja og er búin að upplifa dálítið stóran skammt af missi, það gefur manni ákveðna sýn. Þegar ég var yngri hefði ég ekki náð fram þeim tilfinningum sem þurfti til að skrifa svona bók.“

Sveinbjörg lýsir því hvernig titillinn, Aldrei nema kona, varð til. „Mér fannst mikilvægt að skoða hvaða viðhorf koma fram til kvenna í fornum bókum. Í Vídalínspostillu rakst ég á þessa setningu og starði á hana: „Svo er ein kona aldrei nema kona, hvörsu vel sem hún er af guði gjörð.“ Jón Vídalín segir í framhaldinu að konur geti verið gáfaðri en karlmenn en þær verði að leyfa þeim að ráða, jafnvel þó þær viti betur. Þetta segir mikið um tíðarandann.“

Aldrei nema kona gerist á rúmlega hundrað árum, frá 1759 til 1869, að mestu í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Þó að heimurinn sé harður og dæmin um niðurlægingu kvenna oft sláandi er bókin langt frá því að vera eintómt harmakvein, því samtölin og aðstæðurnar sem Sveinbjörg spinnur gefa henni líf og lit. Fyrir utan að byggja söguna á kirkjubókum, manntölum, æviskrám og dómabókum, auk skáldskaparins, kveðst hún margoft hafa farið á söguslóðir meðan á rituninni stóð og lesið heil ósköp af fróðleik. „Ég var með öll bindin af Byggðasögu Skagafjarðar á borðinu hjá mér í tvö ár, þau komu að góðum notum, sérstaklega bókin um Lýtingsstaðahrepp. Svo las ég sögur af Skagfirðingum eftir Jón Espólín og fjölda greina. Kynnti mér líka störf ljósmæðra á fyrri tíð, gegnum bækur og ritgerðir, þær áttu svo stóran hlut í lífi þessara kvenna sem voru alltaf að eignast börn.

„Ég ákvað að gleyma mér ekki við lýsingu á vinnubrögðum, þótt Þjóðhættir Jónasar frá Hrafnagili hafi verið mér góð heimild, heldur set fókus á tilfinningar og reyni að setja mig í spor kvennanna. Vildi samt ekki vera of væmin, til dæmis í kringum allan barnadauðann. Ég fann sjálf sterkt í uppeldi mínu í gegnum mömmu og ömmu að fólk yrði að halda áfram þrátt fyrir áföll og það hlýtur að hafa einkennt fyrri kynslóðir. Dauðinn var alltaf svo nálægur. Haft var eftir Skúla fógeta að honum þættu konur ekki nógu tilfinningasamar, þær sýndu engin viðbrögð þegar þær væru að missa öll þessi börn. Ég vildi sýna fram á að það væri rangt, hins vegar hafi þær ekki getað leyft sér að dvelja of mikið við þær erfiðu tilfinningar. Þess var krafist af þeim.“

Hjörvar Harðarson hannaði kápu.