Aðeins þremur dögum eftir sjálfstæðisyfirlýsingu Letta, 23. ágúst 1991, voru utanríkisráðherrar Eistlands. Lettlands og Litháen komnir hingað til lands, í boði Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra, til að undirrita formlega stjórnmálasamninga við Íslendinga.

Er Jón svarar símanum í Andalúsíu á Spáni nú 30 árum seinna er hann fyrst spurður: Fylgdu aðrir ráðamenn Íslands þér á fluginu? Hann virðist ekki hrifinn af spurningunni en verður ekki orða vant.

„Ríkisstjórn Íslands er, eins og lögfræðingar orða það, ekki fjölskipað stjórnvald, það er ráðherra málaflokksins sem ræður för. Stefnan í þessu máli var mótuð í tíð fyrri ríkisstjórnar sem Steingrímur Hermannsson leiddi og þegar að því kom að binda endahnútinn með því að kalla utanríkisráðherra Eystrasaltslandanna til fundar í Höfða 26. ágúst 1991, var ágætt samstarf við Davíð Oddsson forsætisráðherra, hann var fyrrverandi borgarstjóri og reddaði Höfða!“

Bryndís og Jón á leið til móttöku í forsetahöll í Vilnius á þjóðhátíðardegi Litháa 6. júlí.

Sögulegt samhengi

Þetta gerðist hratt. Var það samkvæmisleikur að verða fyrst þjóða til að viðurkenna endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsríkja eða telurðu að þetta viðbragð hafi skipt höfuðmáli um niðurstöðuna í heild?

„Til að svara því þarf að setja málið í sögulegt samhengi. Við erum að tala um árin 1990 til loka 1991. Það sem yfirgnæfði annað voru samningar milli Sovétríkjanna, undir forystu Gorbatsjovs, og Vesturveldanna, um endalok kalda stríðsins. Gorbatsjov hafði frumkvæðið, Vesturveldin voru í því að bregðast við og mikið var í húfi, því ef honum mistækist var viðbúið að harðlínumenn kæmust til valda og þá væri allt fyrir bí. Gorbatsjov var að tapa fylgi og missa tök heima fyrir, en dró þá línu í sandinn að Sovétríkjunum yrði að halda saman í nafni friðar og stöðugleika. Bush Bandaríkjaforseti tók undir það í ræðu í ágúst 1991 og sagði það yfirlýsta stefnu Vesturvelda. Samkvæmt henni var útilokað að þau styddu endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltslanda, því með því yfirgæfu þau Sovétríkin.

Þann 19. ágúst 1991 var gerð valdaránstilraun í Moskvu, harðlínumenn reyndu að komast að en mistókst. Gorbatsjov var steypt af stóli en lýðræðisöfl, undir forystu Jeltsín, reyndust lífseigari en ætla mátti. Þar með var stefna Vesturveldanna farin forgörðum og tómarúm skapaðist. Við þessar kringumstæður lýstu Eistar og Lettar yfir sjálfstæði og ég tók frumkvæði með því að bjóða þeim til Íslands til undirskrifta samninga, sannfærður um að önnur ríki kæmu í kjölfarið. Það gekk eftir. Því finnst Eystrasaltsþjóðum að á þessari ögurstundu hafi Íslendingar sett af stað jákvæða atburðarás sem ekki varð stöðvuð. Það er orðinn partur af þeirra sögu.“

Utanríkisráðherrarnir á Hótel Sögu: Jón Baldvin, Lennart Meri frá Eistlandi, Janis Jurkans frá Lettlandi og Algirdas Saudargas frá Litháen. Mynd/ Hanna Sigga Sigurðardóttir

Derringur í Bush

Jón rifjar upp að á blaðamannafundi alllöngu síðar, þegar Bandaríkjamenn voru að skrifa undir sjálfstæðisviðurkenninguna hafi Bush sagt:

„Það sem máli skiptir er hvað Bandaríkin gera. Hver man það síðar meir þó Ísland, eða eitthvert annað ríki, hafi orðið fyrst?“ Svarið er að við Eystrasaltið er almenningur jafnvel enn betur meðvitaður um það nú en þegar þetta var að gerast, því sagan er skráð. Rannsóknir á gögnum segja: Þarna gerðist óvenjulegur hlutur, lítil þjóð, herlaus og fámenn, sem aldrei hefur komið við sögu í endatafli stórvelda, setti af stað ferli sem var byggt á raunsærra mati en annarra og tók þá áhættu að kalla yfir sig reiði Sovétríkjanna. Þau ríki sundruðust ekki fyrr en nokkrum mánuðum seinna.“

Svo er Jón ekki búinn að gleyma spurningu númer tvö.

„Kannski líta einhverjir Íslendingar svo á að um samkvæmisleik hafi verið að ræða, en í ljósi þessara sögulegu staðreynda líta Eystrasaltsþjóðir svo á að okkar framtak hafi skilað miklum árangri og eru þakklátar fyrir.“

Inntur eftir hvort hann komi oft til Eystrasaltslanda svarar Jón Baldvin:

„Ég hef komið þar býsna oft, einkum fyrr á árum og var gestakennari þar við háskóla 2013 og 14. Reyndar er ég heiðursborgari í Vilnius í Litháen og nýt þeirra forréttinda þar að þurfa ekki að borga útsvar, fá frítt í strætó og ókeypis greftrun. Ég læt Bryndísi um að meta hvort ég þiggi þetta þetta síðasta.“