„Ég var á fréttavaktinni á þessum tíma og ég man hvað manni fannst ömurlegt að heyra af þessu. Að einhverjir glæpamenn séu farnir að ráðast á fólk til að reyna að hafa áhrif á liðsval fyrir Ólympíuleikana. Svo var ég viðstaddur þegar þær kepptu í Lillehammer. Það var afar eftirminnileg stund,“ segir Samúel Örn Erlingsson, kennari, þáttagerðarmaður og fyrrum íþróttafréttamaður á Ríkissjónvarpinu um árabil, spurður út í árásina á Nancy Kerrigan, sem átti sér stað á þessum degi árið 1994. Seinna kom í ljós að unnusti Tonyu Harding hafði skipulagt árásina, til að auðvelda leið Harding í sveit Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum. „Ég man að það var blendin stemming í höllinni. Kannski var það Harding í hag að mótið fór fram í Noregi en ekki Bandaríkjunum. Fólk á Norðurlöndunum er talsvert kurteisara og ólíklegra til að blístra og baula.“

Árásin átti sér stað eftir æfingu Kerrigan, í aðdraganda bandaríska meistaramótsins í ársbyrjun 1994. Á meistaramótinu kom í ljós hvaða þátttakendur færu fyrir hönd Bandaríkjanna á Ólympíuleikana. Þegar myndatökumenn komu auga á Kerrigan sat hún grátandi og öskraði: Af hverju ég? Seinna kom í ljós að árásarmaðurinn, sem notaðist við kylfu í árásinni, var Shawn Eckhardt, góðvinur unnusta Harding.

Þrátt fyrir árásina tókst Kerrigan að ná undraverðum bata á nokkrum vikum og vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum, á meðan Harding náði sér ekki á strik og lenti í áttunda sæti. Á stuttum tíma var Harding orðin að illmenni og heimsbyggðin fylgdist límd við skjáinn með útsendingunni frá skautakeppninni í Noregi. Sá stimpill átti eftir að fylgja Harding áfram, sem reyndi einnig fyrir sér sem hnefaleikakona.

„Harding kom úr slæmu umhverfi og félagsskap, sem hún átti erfitt með að slíta sig úr, þrátt fyrir hæfileikana á svellinu. En það var ekki hún sem barði Kerrigan, heldur maður sem var skúrkur og glæpamaður,“ segir Samúel og heldur áfram:

„Þetta varð að þessu hneyksli sem fréttist út um allan heim. Það var því gríðarlegur áhugi þegar Harding fór út á ísinn í Lillehammer. Hún brotnaði sjálf saman á svellinu, enda gríðarleg pressa á henni. En hún fékk fyrir góðvild að taka aðra atrennu. Það var í raun lítil hætta á að Harding kæmist á verðlaunapallinn. Hún var næstbest í sveit Ameríku, en Kerrigan var mun betri en hún og líkleg til að komast á verðlaunapall.“

Samúel tekur undir að málið sé eitt af umdeildari málum síðustu aldar.

„Þetta er eitt af eftirminnilegustu málunum sem ég fjallaði um á mínum fjölmiðlaferli. Skyndilega sýndu allar fréttadeildir skautaíþróttum mikinn áhuga. Á þessum tíma naut listhlaup á skautum meiri vinsælda en í dag og er enn tengt þessu atviki. Þetta setti jafnmikinn skugga á íþróttina og athygli, þannig að það voru blendnar tilfinningar til þessa máls,“ segir Samúel og heldur áfram: „En það var auðvitað allt í þessu, silkiheimur skautaíþróttarinnar, heimsstjörnur, sakleysi, vondi kallinn og glæpir. Allt samtvinnað í einni sögu, sem æsipressan nærðist á og blés upp, þó að við höfum kannski stigið varlega til jarðar á RÚV.“

Þetta voru einu Vetrarólympíuleikarnir sem Samúel sinnti á staðnum, en hann lýsti og fjallaði um vetrarleika úr fjarlægð í aldarfjórðung. Hann hugsar með hlýhug til baka þrátt fyrir skandalinn í aðdraganda leikanna.

„Vetrarleikarnir í Lillehammer voru að mörgu leyti sögulegir, margir atburðir eftirminnilegir utan þessa atviks. Það var mikið sviðsljós á Vetrarólympíuleikunum á þessum tíma og mikil pressa á heimamönnum sem stóðu sig svo frábærlega.“