„Þetta er frumburður okkar Gunnhildar Daðadóttur saman,“ segir Guðný Jónasdóttir sellóleikari glaðlega um fyrstu tónleika Kammerhópsins Jöklu á morgun í Hannesarholti. Þeir hefjast klukkan 14. Hún tekur fram að þær Gunnhildur eigi fimm börn samtals og hafi því verið dálítið í fæðingarorlofi frá fagvinnu sinni í Sinfó. Nú hafi þeim þótt þörf á að gera eitthvað róttækt, enda hafi þær ákveðið að vera í sömu kúlu í kófinu, hittast og spila til að halda geðheilsu, með krílin á leikteppum eða í pössun.

Með þeim stöllum leika í Jöklu þau Julia Hanstschel óbóleikari, Grímur Helgason klarinettuleikari og Guðrún Hrund Harðardóttir víóluleikari.

„Ég kynntist Júlíu þegar ég var í námi í Bretlandi, þar spiluðum við saman í hljómsveit og alls konar hópum. Gaman að hún skuli hafa fengið vinnu hjá Sinfó, það eru ekki margir leiðandi óbóspilarar í heiminum.“

Blásarakvartettar eftir B.Britten, J.C.Bach og B.H.Crusell eru á efnisskránni og að endingu leikur Jökla glænýtt verk eftir Gísla Magnússon tónskáld sem nefnist Draumsýn. Guðný segir hann hafa samið það sérstaklega fyrir hópinn.

„Það er spennandi verk, algerlega enginn púls en mjög nákvæmlega út skrifað og sérstakur hljóðheimur sem skapast. Ef fólk getur séð fyrir sér fugla og fiðrildi getur það notið hans!“