„Það er auðvitað stórkostlegt gleðiefni að fá að lifa það að verða sjötugur,“ segir Margrét Bóasdóttir, sem fagnar stórafmæli á mánudaginn. „Ef maður hefur heilsu þá er bara frábært að eldast.“

Afmælisbarnið er að sögn ekki mikið fyrir hefðir á deginum stóra.

„Nei, ég hef aldrei verið fyrir það en ég sef örugglega út,“ segir Margrét, sem býr á Hvalfjarðarströnd og stefnir að því að vera heima fyrir á afmælinu þótt það sé á mánudegi. „Þetta verður frekar lágstemmt núna en aðalafmælishátíðin felst í því að ég ætla til Leipzig í vikunni þar á eftir og hlusta á son minn syngja jólaóratoríuna.“

Sungið í tvo sólarhringa

Þegar Fréttablaðið heyrði síðast í Margréti var hún á þönum við að undirbúa norrænu kórahátíðina Nordklang í Vatnsmýrinni, sem hún segir að hafi verið mikill hasar. Sem söngmálastjóri þjóðkirkjunnar er nóg að gera hjá Margréti, sem hefur verið önnum kafin að vinna í kringum nýja sálmabók sem kom út fyrir skömmu.

„Það hefur í rauninni verið unnið að þessari bók síðan 2005 þótt aðalvinnan hafi farið fram undanfarin sjö ár.“

Næsta verkefni Margrétar eftir að bókin kom út verður svokallað sálmabókarmaraþon í maí.

„Það felst í því að kirkjan og sjónvarp allra landsmanna taka höndum saman og við syngjum alla 795 sálmana í bókinni,“ útskýrir Margrét. „Við byrjum á númer eitt, sem er þjóðsöngurinn, og syngjum svo í réttri röð hvern einasta sálm, dag og nótt, í sjónvarpinu.“

Slíkt maraþon hljómar ansi tímafrekt og býst Margrét við að það taki um fimmtíu klukkustundir af stanslausum söng. Markmiðið að baki maraþoninu er tvískipt.

„Fyrsta markmiðið er að eignast myndband af öllum sálmunum í bókinni. Hitt er að allir söfnuðir landsins séu með.“

Hvernig þjálfar maður raddböndin í svona maraþon?

„Þetta er í rauninni bara rosa stórt excel-skjal,“ segir Margrét en maraþonið mun fara fram í þremur til fjórum kirkjum til skiptis svo að kórar landsins mæti á þann stað sem er næstur þeirra búsetu. „Þá munu einhverjir koma til að syngja jólasálmana, aðrir sem syngja jarðarfararsálmana og enn aðrir sem syngja skírnarsálmana.“

Margrét segir þó að ekki sé verið að finna upp hjólið með maraþoninu.

„Norðmenn gerðu þetta 2015 þegar þeir fengu nýja sálmabók svo við erum að leika eftir þeirra hugmynd. Ég veit þó að minnsta kosti alveg hvað ég verð að gera á næstunni.“

Breytingar og ekki

Margrét hefur verið viðloðandi kórastarf lengur en flestir.

„Covid gerði mjög mikla skráveifu í kórastarfi,“ svarar hún, spurð að því hvernig kórar landsins standi í dag. „Það er að koma í ljós núna að margir kórar standa annaðhvort höllum fæti eða þurfa að ganga í gegnum einhverja endurnýjun. Það er auðvitað alltaf eitthvað gott sem kemur út úr erfiðleikum. Það eru þó nokkrir kórar í þessu ástandi núna að þeir vita ekki alveg hvort þeir geti lifað eða dáið.“

Líf hefur þó verið að glæðast í aðsókn á kórtónleika.

„Menn vilja auðvitað gjarnan syngja svo einhver hlusti á og margir tryggir tónleikagestir sem eru þá kannski komnir yfir miðjan aldur töpuðu kjarkinum í faraldrinum. Það er ákveðin glíma líka en þetta er samt pínu eins og veðrið,“ segir Margrét. „Það skiptast á skin og skúrir en grundvöllurinn er samt sá að Íslendingum finnst gaman að syngja og miðað við okkar blessuðu höfðatölu þá er kórastarf hér gífurlega fjölmennt miðað við fjölda í samfélaginu. Það hefur ekkert breyst þótt þetta séu breytingatímar samt sem áður.“

Handavinnan kom á óvart

Þegar hún er krafin um skemmtilega afmælisminningu minnist Margrét fimmtugsafmælis síns sem fór fram í sal hjá Félagi íslenskra hljómlistarmanna.

„Það var opið hús og glatt á hjalla, en það sem var sérstakt var það að eitt atriðanna á dagskránni var að ég var með handavinnusýningu á eigin verkum. Það var svolítið grín en samt alvara líka, því ég hef ekki verið þekkt fyrir að vera hannyrðakona en ég var ægilega dugleg þegar ég var yngri og hafði geymt allt mögulegt sem ég hafði heklað, prjónað og saumað. Þá var ég með heilan vegg í partíinu sem var sýning á minni eigin handavinnu. Þá rak marga í rogastans!“