Fiðluleikarinn Sif Margrét Tulinius stendur fyrir tónleikaröðinni Bach og nútíminn í Landakotskirkju þar sem hún flytur fiðlusónötur Johanns Sebastians Bach ásamt því að frumflytja þrjú íslensk einleiksverk fyrir fiðlu eftir tónskáldin Huga Guðmundsson, Hjálmar H. Ragnarsson og Viktor Orra Árnason.

Fyrstu tónleikar þríleiksins fóru fram í nóvember í fyrra en frestun varð vegna faraldursins og munu seinni tvennir tónleikarnir fara fram í Landakotskirkju 15. og 29. mars næstkomandi.

„Árið 2020 fæðist þessi hugmynd í tengslum við það að 300 ár voru frá því að Johann Sebastian Bach skrifaði einleiksverk sín fyrir fiðlu. Þá langaði mig að varpa ljósi á þessi stórbrotnu meistaraverk Bachs í samhengi við allan sköpunarkraftinn í nýrri tónlist og ekki síst það sem tónskáld í dag eru að gera,“ segir Sif Margrét.

Einleikssónötur Johanns Sebastians Bach voru skrifaðar árið 1720, fyrir rúmum 300 árum, og sýna yfirburða færni tónskáldsins og ekki síst gríðarlega þekkingu á hljóðfærinu. Verkin tróna enn þann dag í dag á toppi einleiksverka sem samin hafa verið fyrir fiðluna.

„Þess vegna var hugmyndin að biðja þessi íslensku tónskáld að skrifa einleiksverk fyrir fiðlu, alveg eins og hann gerði. Það er bara fiðla og akústík, engin elektróník. Þetta er bara flytjandinn, fiðlan, strengirnir, sköpunarverkið og sköpunarkrafturinn. Alveg eins og hjá Bach fyrir 300 árum,“ segir Sif Margrét.

Tónverkin þrjú eftir íslensku tónskáldin sem samin voru sérstaklega fyrir Sif Margréti eru af mismunandi gerð og karakter en öll frekar stór í sniðum og bera sterk einkenni hvers tónskálds. Heimur fiðlunnar er kannaður til hins ítrasta og gerðar eru miklar kröfur til hljóðfæraleikarans hvað varðar tæknilega útfærslu og hugmyndaauðgi.

„Fyrir mig sem flytjanda þá er þetta algjörlega að raungerast, þetta samtal á milli tónskálda með þrjú hundruð ára millibili,“ segir Sif Margrét.

Tónverk Hjálmars H. Ragnarssonar nefnist Partíta, tónverk Viktors Orra Árnasonar Dark Gravity og verk Huga Guðmundssonar Praesentia. Spurð um hvernig tónskáldin hafi tekið boðinu um að skrifa fyrir hana verk segir Sif Margrét:

„Þeir tóku því mjög vel og þetta fór allt á fleygiferð og var alls ekki lengi að gerast. Nema náttúrlega að flutningurinn á því hefur frestast út af faraldrinum.“

Að sögn Sifjar var það mjög gefandi upplifun að vinna með öllum tónskáldunum og segir hún samstarfið við Landakotskirkju að sama skapi hafa verið mjög farsælt og kveðst ánægð með að fá að flytja verkin í svo fallegri og hljómfagurri kirkju.

Tónleikarnir fara fram í Landakotskirkju þriðjudagskvöldin 15. og 29. mars kl. 20.00 og fer miðasala fram á Tix.is.