Í stofu dvalar­heimilisins Mjall­hvítar á Höfn sitja þrír Horn­firðingar af eldri kyn­slóðinni, Ása Finns­dóttir, Ragnar Ara­son og Sig­ný Guð­munds­dóttir. Þau hafa þar hvert sitt her­bergi og hafa tekið hús­næðið á leigu til sjálf­stæðrar bú­setu, með stuðningi heima­þjónustu. Það gerðist eftir að nærri lá í apríl síðast­liðnum að þau yrðu flutt nauðug á hjúkrunar­deild, án þess að vera sjúk­lingar. „Við bjuggum hér í Mjall­hvíti á vegum Skjól­garðs sem bæjar­fé­lagið sá um rekstur á þar til í vor. Þá tók Vig­dísar­holt við og vildi spara með því að færa okkur á hjúkrunar­deildina. Þar var bara tví­býli í boði, það fannst okkur ó­að­gengi­legt,“ segir Ragnar. „Ég var ný­búinn að selja húsið, fara í gegnum allar mínar eigur og flytja hingað í öruggt at­hvarf, að mér hafði verið sagt.“

Allt í lausu lofti um tíma

Ása hafði dvalið í Mjall­hvíti í tæp tvö ár þegar þessi staða kom snögg­lega upp í apríl. „Allt var í lausu lofti um tíma og það var ó­þægi­legt en við þrjú vorum sam­taka í að halda sjálf­stæðinu og höfðum góðan stuðning að­stand­enda. Nú erum við bara með okkar reikning.“

Sig­ný kveðst hafa flutt inn í Mjall­hvíti á þorra­daginn í ár, 22. janúar. Áður leigt íbúð af bæjar­fé­laginu á neðri hæð þessa sama húss og farið í há­degis­mat og handa­vinnu í Ekru, fé­lags­mið­stöð eldri borgara, en sjálf séð um þvotta og kvöld­mat og börnin hennar um að­drætti úr búð. „Þegar ég frétti af lausu her­bergi hér á­kvað ég að sækja um og var al­sæl en brá í brún þegar ekki virtist um annað að tefla en flytja í tví­býli á hjúkrun. Við neituðum öll að fara og náðum samningi við sveitar­fé­lagið með hjálp fólksins okkar. Þannig að við leigjum þessa íbúð, líkt og ég leigði hér niðri áður og fáum þá þjónustu sem við þurfum frá vel­ferðar­sviði bæjarins.“

„Við vorum ekki beint með upp­steyt þó við vildum ekki láta flytja okkur hreppa­flutningum heldur skrifuðum undir samning í frið­semd,“ tekur Ása fram. „Vorum ekki með spjöld á torgum, eða svo­leiðis,“ á­réttar Sig­ný. Ása brosir og rifjar upp að eitt sinn hafi hún verið í kröfu­göngu með spjald. „Mikið of­boðs­lega var gaman en ég var ekki nema níu ára, þá var ég svona mikill kommún­isti!“

Þarf að sinna andanum

Þetta magnaða þrí­eyki segir sam­búðina ganga á­rekstra­laust en hvað gerir það sér helst til dundurs? „Við spilum,“ segir Sig­ný glað­lega. „Sumir segja að við rekum spila­víti! Að­stoðar­fólkið tekur þátt og les líka fyrir okkur.“ „Já, það er ekki nóg að gefa gömlu fólki að borða heldur þarf líka að sinna andanum,“ segir Ragnar. „Þó maður sé kannski illa mót­tæki­legur 95 ára, eins og ég varð núna í vikunni!“ segir Ása brosandi en Sig­ný segir Ásu ó­missandi á heimilinu. „Við Ragnar sjáum svo illa og ef ein­hver vanda­mál koma upp þegar við erum ein, til dæmis í kaffi­tímum, þá köllum við í Ásu,“ út­skýrir hún og dregur upp höfuð­ljós eins og björgunar­sveitar­fólk notar. „Þetta hef ég til að sjá á spilin mín. Ég sé ekki hvað hin láta út og þarf að spyrja, þá veit ég hvað ég á að gera og er svo heppin að hér er enginn að flýta sér eða svindla. Svona eiga sam­býli aldraðra að vera.“

Fengu blóm og sérrí

„Ég hefði bara viljað fá fleiri leigj­endur, það eru þrjú her­bergi laus,“ segir Ragnar. „En það má víst ekki, eins og mér finnst þó vanta hér á Höfn milli­stig milli hjúkrunar­deildar og sjálf­stæðrar bú­setu. „Já, að geta haldið sjálf­stæði og líka haft fé­lags­skap finnst mér yndis­legt,“ segir Ása. „Svo erum við öll með öryggis­hnappa sem eru tengdir Skjól­garði, það er mjög gott. Ég var fegnust því þegar ég flutti hingað að losna við að sjá um lyfin. Það fannst mér lúxus. Ó­vissan var erfið meðan á henni stóð en þetta getur ekki verið betra.“ Það tekur Sig­ný undir. „Þegar stríðið var af­staðið og við búin að fá okkar fram, kom Dadda Ás­mundar­dóttir, sem er yfir heil­brigðis­málum hér, með blóm­vönd og sér­ríf lösku handa okkur og við skildum öll sátt.“

Ragnar rifjar upp að Gunna Ingi­mundar, starfs­stúlka hjá þeim, hafi alltaf verið bjart­sýn fyrir þeirra hönd og sagt: „Við skulum ekki reyna að komast yfir ána fyrr en við komum að henni,“ – og við komum aldrei að henni.“