Ég veit að samkomubanni var beitt töluvert á árunum eftir spænsku veikina. Hún hafði gríðarleg áhrif á viðhorf fólks og var eins konar tráma,“ segir Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur.

Elsta dæmið um samkomubann sem finna má á vefnum timarit.is er frá 1919 en þá var sett á samkomubann í Hafnarfirði til að sporna við útbreiðslu taugaveiki. Gunnar Þór sem vinnur nú að bók um spænsku veikina sem geisaði á Íslandi árið 1918 segir að árin á eftir hafi oft komið upp ótti við að svipaður faraldur væri að koma aftur.

„Fólk sem var að koma frá útlöndum var alloft sett í sóttkví. Það voru líka sett ný sóttvarnalög í kjölfar spænsku veikinnar,“ segir Gunnar Þór.

Hann segir að það sé engin tilviljun að dæmi um samkomubann finnst strax árið eftir spænsku veikina. Um beina afleiðingu sé að ræða.

„Það er mjög athyglisvert að bera spænsku veikina saman við það sem nú er að gerast. Svo er reyndar dálítið magnað að vera langt kominn með bók um „síðustu drepsóttina“ þegar COVID-19 skellur á okkur. Ég þarf að breyta inngangi og ýmsu öðru sem ég þóttist vera búinn með.“

Tæplega 500 manns létust úr spænsku veikinni á Íslandi og áhrifin voru gríðarleg á daglegt líf landsmanna. Verslanir lokuðu, dagblöð hættu að koma út og samband við útlönd féll niður vegna veikinda starfsmanna Landssímans. Þá féllu messur niður og sorp var ekki hirt.

Eins og fyrr segir var samkomubanni beitt í Hafnarfirði 1919. Á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar var gripið til þessa úrræðis í nokkur skipti. Var það oftast til að hefta útbreiðslu inflúensu en einnig vegna mislinga, skarlatssóttar og barnaveiki. Oft var um staðbundið bann að ræða en stundum náði það víða um land. Þannig var samkomubann í gildi á mörgum stöðum í febrúar og mars 1931 vegna inflúensu. Hið sama gerðist í mars 1937 og febrúar 1941.

Það var svo í nóvember 1948 að samkomubann gekk í gildi á Akureyri vegna mænuveikifaraldurs sem fékk síðar nafnbótina Akureyrarveikin. Banninu var aflétt í desember en sett á aftur þegar faraldurinn fór aftur að aukast.

Veikin barst einnig til Ísafjarðar, þar sem samkomubann var sett um tíma, Hvammstanga og Sauðárkróks. Samkomubanninu var ekki aflétt á Akureyri fyrr en um miðjan febrúar 1949.

Það er einnig hægt að finna dæmi um samkomubönn sem ekki voru sett á til að hefta útbreiðslu sjúkdóma.

Þannig var sett á samkomubann á Siglufirði um áramótin 1953-54. Þar hafði sprengiefnabirgðum bæjarins verið stolið og óttuðust yfirvöld að þýfið yrði notað til óláta á gamlárskvöld. Svo fór þó ekki því þjófarnir skiluðu sprengiefninu og stóð bannið bara í eitt kvöld.

Þá þurfti að setja á tímabundið samkomubann í Keflavík í nóvember 1954 vegna þess að enginn lögregluþjónn starfaði í bænum. Loks setti sýslumaður Þingeyinga á samkomubann um verslunarmannahelgina 1962. Ástæðan var sú að árið áður hafði komið til mikilla áfloga á útiskemmtun í Vaglaskógi og miklar skemmdir unnar á svæðinu.