Fyrsta leikna kvikmyndin sem tekin var upp á Íslandi, Saga Borgarættarinnar, fagnar 100 ára afmæli sínu í ár. Í tilefni af tímamótunum var kvikmyndin nýlega endurgerð og var fyrr í mánuðinum sýnd í Bíó Paradís.

Myndin byggir á skáldsögu Gunnars Gunnarssonar og var tekin upp á Keldum á Rangárvöllum, Reykholti í Borgarfirði, Reykjavík og Hafnarfirði.

„Kvikmyndasafn Íslands og Gunnarsstofnun ákváðu að ráðast í stafræna endurgerð á myndinni,“ segir Þórður Magnússon tónskáld, sem sá um að semja tónlistina fyrir endurgerðina.

„Þá þurfti setja einhverja tónlist við og ákveðið var að semja nýja tónlist í stað þess að vera að nota gamla eins og hingað til hefur verið gert.“

En hvernig byrjar maður á að semja tónlist fyrir 100 ára gamla kvikmynd?

„Maður byrjar á því að taka ákvarðanir – hvað hentar og hvað hentar ekki?“ segir Þórður. „Ég tók þá ákvörðun að reyna að fylgja tímanum, að vera staddur þarna í kringum 1920 tónlistarlega séð. Nálgunin var ekki eins og þegar Giorgio Moroder notaði meðal annars tónlist eftir Queen við endurgerð Metropolis á sínum tíma.“

Tónlist Þórðar við myndina var nýlega gefin út og er aðgengileg á veitum á borð við Spotify.

Myndin kom á óvart

Þórður segir að myndin sjálf hafi komið honum mikið á óvart.„Ég hafði heyrt um Sögu Borgarættarinnar en aldrei séð hana, þegar ég fékk þetta verkefni. Ég var með þá fordóma að þetta hlyti að vera tæknilega gölluð mynd því hún væri svo gömul og gerð við svo frumstæðar aðstæður,“ segir hann.

„Síðan kemur í ljós að myndin er býsna tæknilega fullkomin og eins góð og kvikmyndir gerðust á þessum tíma. Danska tökuliðið sem vann að myndinni var í raun með þeim fremstu í heiminum á þessum tíma.“

Þá segir Þórður að myndin standi einnig á eigin fótum, utan tækninnar.

„Kvikmyndagerð er svo ung á þessum tíma að ég hélt kannski að það væri ekki búið að fullkomna ákveðna dramatík og hvað væri hægt að gera í bíó,“ segir hann.

„En myndin smellur og leikurinn er býsna góður.“Guðmundur Thorsteinsson, eða Muggur eins og hann er iðulega kallaður, fer með eitt af aðalhlutverkunum í myndinni, og segir Þórður að hann hafi verið prýðisleikari.

„Hann er býsna góður leikari,“ segir hann. „Hann leikur aðalsöguhetju myndarinnar, Ormar, bæði sem ungan mann og miðaldra, og tekst ansi vel til.“