Jólasálmurinn Heims um ból var fluttur í fyrsta skipti á aðfangadag árið 1818. Hann var saminn af Austurríkismanninum Joseph Mohr árið 1816 sem þá var prestur í þorpinu Mariapfarr. Hann fluttist síðar til Oberndorf þar sem hann varð aðstoðarprestur við Nikulásarkirkjuna. Þar bað hann tónlistarkennarann Franz Gruber að semja lag við texta sinn fyrir gítar og söng þar sem kirkjuorgelið hafði skemmst þegar ár höfðu flætt yfir bakka sína þar nærri.
Mohr og Gruber fluttu svo lagið ásamt öðrum við messu í kirkjunni um kvöldið. Meðal þeirra sem heyrðu lagið var Karl Mauracher, orgelsmiður við kirkjuna í Oberndorf. Sá varð svo snortinn að hann tók lagið með sér heim og dreifðist lagið þaðan til fjölskyldna farandsöngvara sem bættu sálminum við dagskrá sína. Sálmurinn var spilaður víða, meðal annars fyrir keisara Rússlands, Prússlands og Austurríkis.
Nafn Mohr gleymdist með tímanum og héldu margir að sálmurinn hefði verið skrifaður af frægari skáldum á borð við Mozart eða Beethoven. Árið 1995 fundust hins vegar drög að sálminum handskrifuð af Mohr sem rakin voru aftur til 1820. Sálmurinn hefur síðan þá verið þýddur á yfir 140 tungumál. Íslenski textinn, saminn af Sveinbirni Egilssyni, er þó ekki þýðing á textanum heldur frumsamið ljóð sungið við lag Gruber.