Fatlanir geta verið með ýmsu móti. Ef táknmálstúlk vantar getur heyrnarlaus ekki notið fyrirlesturs á töluðu máli en ég ætla að fjalla um aðgengi fyrir hreyfihamlaða,“ segir Gunnar Karl Haraldsson sem nú er í meistaranámi fyrir framhaldsskólakennara. Hann er einn þeirra sem halda erindi á málþingi í Háskóla Íslands við Stakkahlíð á morgun milli klukkan 10.15 og 11.40 sem nemendur í tjáningu og samskiptum standa að.

Gunnars kveðst ætla að lýsa BA- verkefni sínu í tómstunda- og félagsmálafræði. „Ég tók út aðgengi að fimm félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Það var sums staðar gallalaust en á einum stað komst ég ekki inn. Salerni fatlaðra var notað sem geymsla á einum stað, svo búið var að þrengja að notendum. Það er því rosalega flott efni sem nemendur á fyrsta ári í tómstundafræðinni taka fyrir á þessu málþingi og frábært að geta tekið þátt í því.“

Gunnar fæddist með sjúkdóm sem heitir neurofibromatiosis 1. Hann kveðst hafa verið að mestu í hjólastól frá 2015 en geta líka brugðið fyrir sig hækjum ef nauðsyn krefji. Hann mun tala af reynslu um aðgengisvanda á málþinginu og fleiri eru á þeim nótum. Einnig verður fjallað um fötlunarfordóma og á dagskrá eru einnig tónlistaratriði, myndbandssýning og ljóðalestur.