Bókaútgáfan Hólar gaf nýlega út bókina Líkið er fundið – sagnasamtíningur af Jökuldal. Þar hefur Ragnar Ingi Aðalsteinsson, hagyrðingur og skáld, tekið saman aragrúa af kostulegum sögum Jökuldælinga í gegnum aldirnar.

„Við höfum verið að taka saman svona sögur úr héraðinu og nú var það Guðjón Ingi Eiríksson hjá Hólum sem lagði fast að mér að fara í þetta verk,“ segir Ragnar Ingi. „Ég er náttúrulega alinn upp af Jökuldalnum og kann mikið af góðum sögum þaðan.“

Ragnar Ingi segir að mikla sagnahefð sé að finna á Jökuldalnum og fólk þar hafi gaman að því að segja sögur.

„Við höfum verið að leika okkur aðeins með þessar hugmyndir um sögurnar sem listrænt form,“ útskýrir hann.

Erfið flugferð

Sagnasvið bókarinnar er vítt og spannar að sögn Ragnars Inga nærri 1100 til 1200 ár.

„Ég byrja með þjóðsögur frá landnámsöld og um það bil. Það er ekki mikið frá seinni miðöldum en um átjándu og nítjándu öldina heilmikið fjör,“ segir hann. „Það voru góðir prestar sem við höfðum og það hefur alltaf verið gaman að segja sögur af þeim.“

Í sagnasamtíningi Ragnars Inga kennir ýmissa grasa, en þar má meðal annars finna drauga, reiðhest sem stendur á haus og fullyrðingar um uppbókaða Akureyrardeild Helvítis. Þá dregur titill bókarinnar, Líkið er fundið, nafn sitt af óheppilegri flugferð Kolbeins Aðalsteinssonar.

„Kolbeinn var flugmaður á Egilsstöðum og var sendur til að sækja lík suður á Hornafirði og fljúga með það til krufningar til Reykjavíkur. Hann var einn í vélinni þegar líkið fór á hreyfingu með alls konar búkhljóðum þar sem gekk á öllu.“

Sagnahefðin forréttindi

Ríka sagnahefð Jökuldælinga segir Ragnar Ingi mögulega tengda því að þeir hafi alla tíð búið afskaplega vel.

„Þeir hafa átt góð bú og komust vel af. Ólíkt öðrum sem þurftu að berjast fyrir lífi sínu fjórtán tíma á dag sjö sólarhringa í viku, þá höfðu Jökuldælingar kannski svolítið meira svigrúm til að vera aðeins afslappaðri. Þá gafst kannski tími til að spekúlera aðeins í málunum.“

Í formála bókarinnar segir einmitt að sögurnar segi kannski ekki nákvæmlega hvernig Jökuldælingar séu, heldur hvernig þeir segja frá.

„Kúnstin liggur í því að geta fundið skemmtilegar hliðar á því sem er að gerast í mannlífinu og segja frá því á skemmtilegan hátt,“ segir Ragnar Ingi.