Þessar bækur eru gerðar líkt og myndaalbúm nema að í hverri þeirra eru opinberar upplýsingar um eitt hús, út frá elstu íbúaskrá Reyðarfjarðar, frá 1890. Svo eru margar auðar síður þar sem fólk getur límt eigin frásagnir og myndir á, segir Vigfús Ólafsson, fyrrum útibússtjóri Landsbankans á Reyðarfirði, um 45 bækur sem hann afhenti Bókasafni Reyðarfjarðar til varðveislu á dögunum. Austurfrétt greindi frá.

Vigfús flutti suður fyrir 20 árum, en átti lengst af heima á Reyðarfirði og þekkti öll húsin sem hann skrifaði um. „En ég tek bara upplýsingar af skjalasöfnum, úr íbúaskrám, fasteignamati og lóðasamningum, ekkert persónulegt, nema í bókinni um hús fjölskyldu minnar, þar set ég sögur og myndir. Þeir sem tengjast hinum húsunum eiga að geta sett inn sínar minningar og myndir. Þær geta eins verið frá því í gær og fyrir fimmtíu árum, sagan er alltaf að gerast, hún er eins og á sem rennur.“

Hugmynd að bókunum segir Vigfús hafa kviknað fyrir fjórum árum. „Þá kom mynd á fésbók af húsi heima og það vissi enginn neitt um það, en ég gat veitt upplýsingar. Þetta var snikkað hús, sá sem byggði það hét Jón Pálsson (1891-1988) og var dýralæknir. Eftir þetta fór ég að grúska í sögu húsanna á Reyðarfirði og bækurnar eru afraksturinn. Í einni þeirra eru þrjú hús sem hafa verið rifin.“

Bókin um Dvergastein lítur svona út.

Guðrún Rúnarsdóttir, bókavörður á Reyðarfirði, er ánægð með framtak Vigfúsar. „Þetta er hvatning til fólks um að sjá til þess að saga bæjarins lifi,“ segir hún. „Við séum ekki bara mötuð á öllu heldur tökum þátt í skráningunni. Þegar kominn er svona góður grunnur er það eiginlega skylda okkar.“

Frágangurinn á bókunum vekur athygli, enda er Vigfús með bókbandsverkstæði heima hjá sér. „Afi minn var bókbindari, stundaði það á veturna og ég var í því með honum frá því ég man eftir mér. Hef því grunnkunnáttuna frá honum, en er alltaf að læra. Þetta er níundi veturinn minn í bókbandsfræðslu Reykjavíkurborgar á Vitatorgi. Hildur Jónsdóttir kennir, hún er bráðflinkur bókbindari og góður kennari,“ útskýrir Vigfús. Hann kveðst gera fleira en binda inn bækur, til dæmis framleiða minnisbækur og heillaóskamöppur.

Auk fræðistarfa og bókbands hefur Vigfús verið í hlutastarfi í Bauhaus í fjögur ár. „Reyndar ætla ég bara að vinna út september. Það er orðið svo mikið að gera hjá mér í pappírnum, ég verð að snúa mér að þeim verkefnum. Það er ágætt að breyta til. Ég er áttatíu og tveggja ára og hef aldrei verið hressari.“ Skyldi hann ætla að halda áfram að skrifa um húsin í Reyðarfirði? „Já, ég verð að gera það. Þetta eru bara íbúðarhús sem ég er kominn með, mig langar að gera atvinnuhúsum og sveitabæjum skil líka.“