Margir ráku upp stór augu haustið 2018 þegar íslenskt haframjöl var allt í einu komið í búðir. Svona líka gott. Bak við það stendur búið Sandhóll í Meðallandi, sem er ekkert meðalbú.

„Við erum búin að setja allt niður sem við ætlum að sá í vor, það eru hafrar, bygg og repja sem fóru niður í tvöhundruð hektara samtals. Byrjuðum um 10. apríl, um leið og frostið fór úr jörðu. Þá gerðust dagarnir langir, það var farið upp klukkan fimm á morgnana og unnið til ellefu á kvöldin,“ segir Örn Karlsson sem býr á Sandhóli ásamt konu sinni, Hellen Gunnarsdóttur. Þau eru frumkvöðlar í ræktun íslenska haframjölsins.

„Maður keyrir sig dálítið út við að herfa og dúndra fræinu niður. Þetta er törn, svo bara hvílir maður sig þegar hún er búin,“ segir Örn. „Við höfum náttúrlega stutt sumur hér á Íslandi og því þarf að sá eins snemma og mögulegt er,“ bendir hann á og segir bæði áburð og fræ fara ofan í jörðina, en ekki vera dreift yfir hana, það sé alger lykill að því að vel takist til.“ Hann tekur fram að um samstarfsverkefni sé að ræða. „Þó vörumerkið sé Sandhóll eru jarðirnar Efri-Ey og Grund líka undir og fólk á þeim bæjum vinnur að búskapnum. Auk þess erum við með tvær jarðir í viðbót. Þetta er stór rekstur. Hér í Meðallandi er feikigott ræktunarland, vantar bara að frönsku skúturnar komi að landi með koníakið, eins og í den!“

Litlir tröllahafrar

„Fyrsta vorið, 2018, sáðum við sænsku yrki sem hét Cilla, það reyndist vel, svo var það fræ ófáanlegt í fyrravor og við fórum yfir í norskt yrki sem heitir Ringsaker, hafrarnir eru aðeins smærri og dekkri,“ lýsir Örn. „Núna verður helmingurinn af uppskerunni Cilla. Ætli við setjum hana ekki í tröllahafrana og Ringsaker í haframjölið? Fólk hefur ekki kvartað, enda er Ringsaker bragðgott yrki en sumum finnst tröllahafrarnir svolítið litlir í ár,“ viðurkennir hann.

Búskapurinn á Sandhóli byggist ekki bara á kornrækt. Þar eru líka yfir 500 nautgripir. Örn segir kýrnar ganga úti með kálfana en komast í hús þegar þeim hentar. „Þær fara ekki inn nema í slagviðri, þeim er alveg sama um þurrakulda. Kálfarnir ganga með þeim í hálft ár og eru þá teknir inn í eldi í eitt ár, áður en þeir eru sendir á Selfoss.“

Varla sanngjarnt að væla

„Ég er bóndi og allt mitt á undir sól og regni,“ orti Stephan G. og Örn getur tekið undir það. „Þetta hefur verið gott vor, mjög þurrt, sem hentaði vel fyrir jarðvinnslu og sáningu, nú óskar maður þess að fá smá vætu til að fá sprettu almennilega í gang. Það er þó sjaldan sem vantar rigningu á þetta svæði svo það er varla sanngjarnt að væla!“

Sandhóll var í eyði þegar Örn og Hellen keyptu jörðina 2006. „Hér voru gömul tún en megnið af ökrunum er nýrækt, landið var allt frá því að vera mjög sendið í það að vera hrein mýri og allt þar á milli. Okkur gengur best að rækta þar sem jarðvegur er svolítið sendinn. Það land verður fljótt þurrt á vorin og því er hægt að sá snemma í það, hafrarnir þurfa lengri vaxtartíma en byggið en okkur hefur samt alltaf tekist að rækta þá til þreskingar.“

Alltaf, segir Örn, er hann ekki bara búinn að fá tvær uppskerur? „Nei, við vorum búin að rækta hafra til þroska sem skepnufóður í níu ár þar á undan. Þá fór maður að segja við sjálfan sig, af hverju ekki að selja þá til manneldis? Svo kom í ljós að það var gríðarlegur markaður fyrir þá. Það eru flutt inn um 2.000 tonn á ári af haframjöli og við erum kannski að rækta 150 tonn. Nú vill þjóðin vera sjálfbær með fæðu og það gefur augaleið að það þarf að rækta meira af höfrum. Ég held að fleiri ættu að hella sér í það.“

Þó Sandhóll sé í Meðallandi er þar ekki rekið neitt meðalbú.