Í Svefneyjum á Breiðafirði er ég fæddur og þar átti ég heima í 17 ár um miðja tuttugustu öldina. Þetta eru mínar rætur,“ segir Þórður Sveinbjörnsson sem nýlega gaf út Svefneyingabók.

Í bókinni er rakin saga eyjanna frá landnámi þeirra um 900 til okkar daga. Fjallað er um byggð eyjanna, fólkið sem þar bjó í gegnum aldirnar, lífsbaráttu þess og örlög. Höfundur hefur viðað að sér ýmsum heimildum sem varpa ljósi á mannlífið þar í aldanna rás.

Þórður fæddist í Svefneyjum árið 1941 og átti þar heima til 17 ára aldurs. Hann lýsir hér á eftirminnilegan hátt bernskuárum sínum í eyjunum frá sjónarhóli ungs drengs og segir frá búskaparháttum um miðja 20. öldina, svo og ýmsum atburðum er þar gerðust.

Eyjabúskapurinn var um margt frábrugðinn hefðbundnum búskap í sveitum landsins. Má þar nefna samgöngur, sem eingöngu fóru fram á sjó, báturinn var farartækið, sem kom í stað hesta eða bifreiða. Féð þurfti að flytja til lands að vori og aftur út í eyjarnar að hausti ásamt lömbunum. Ferðalög og flutningar á skepnum og varningi gátu tekið á og oft var vosbúð á sjónum.

En á móti kom það sem eyjarnar og sjórinn gáfu fólkinu, sem naut þess að hafa ávallt nægan mat. Matarskortur þekktist ekki og ekki nóg með það, því í harðindum gerðist það að sveltandi fólk úr öðrum byggðum var flutt út í eyjarnar, þar sem nægan mat var að hafa. Fiskurinn, fuglinn, selurinn og eggin, allt þetta var kjarngóður matur, sem var til í ríkum mæli.

Þórður segir hugmyndina að bókinni hafa vaknað fyrir um tveimur árum þegar hann var að vinna að örnefnaskrá fyrir eyjarnar. „Fyrir þremur árum tók ég saman örnefni sem í Svefneyjum eru skráð og færði inn á kort og gaf út á prenti ásamt örnefnaskýringum og sögnum þeim tengdum. Við þessa vinnu vaknaði forvitni mín á að færa til bókar meiri fróðleik um eyjarnar – mínar kæru æskustöðvar. Bókin er afrakstur þeirrar vinnu.“

Að sögn Þórðar var búskapur stundaður í Svefneyjum fram á níunda áratug síðustu aldar, en þegar honum lauk eignaðist Dagbjartur Einarsson, útgerðarmaður í Grindavík, eyjarnar og eru þær nú að mestu í eigu og umsjá afkomenda hans.

Bókina prýðir fjöldi mynda af fólki, fallegri náttúru eyjanna, bátum og fuglalífi sem þar er ríkulegt. „Vonandi verður það sem í bókinni er að finna í máli og myndum hagnýtur fróðleikur inn í framtíðina og líka einhverjum til skemmtunar. Ef svo verður er ég sáttur,“ segir Þórður.